143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessa ríkisstjórn skortir ekki framtíðarsýn og svo virðist vera að málshefjandi, hv. þm. Helgi Hjörvar, hafi algjörlega gleymt því að Samfylkingin hafi verið sex ár í ríkisstjórn.

Hér er kallað eftir miklum áformum núverandi ríkisstjórnar og stöðu ríkissjóðs nú. Á það skal minnt að þessi skýrsla sem hér er um fjallað, um framkvæmd fjárlaga janúar til júní 2013, byggir á stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og því fjárlagafrumvarpi sem þessir tveir flokkar lögðu grunn að fyrir síðustu jól og farið er eftir á þessu ári.

Ég get alveg viðurkennt að það eru mér mikil vonbrigði að ekki skuli vera hægt að koma rekstri ríkissjóðs á rétta hlið á þessu ári, en það stafar af því að farið var í mikil útgjaldafjárlög á kosningaári þegar fjárlögin fyrir 2013 voru gerð.

Hér er kallað eftir fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, að við hana sé ekki staðið. Það er ákveðinn óframkvæmanleiki sem gerir það að verkum að ekki var hægt að fara þá leið sem þessi ríkisstjórn fór vegna þess að fjárfestingaráætlunin byggði á eignasölu. Fyrri ríkisstjórn ætlaði að selja hluti ríkisins í bönkunum, fyrri ríkisstjórn setti á óframkvæmanlegt veiðileyfagjald, svo dæmi séu tekin, og þess vegna er staðan svona.

Talað hefur verið um að árið 2013 verði rekið með 30 milljarða kr. halla. Þeirri tölu er nú náð. Enn eru þrír mánuðir eftir af árinu þannig að líklega verður hallinn mun meiri. Ég vil benda þingmönnum á blaðsíðu 11 í skýrslunni, þar kemur fram að í júní á þessu ári voru þá þegar 42 fjárlagaliðir farnir fram úr. Það er vísbending um að (Forseti hringir.) ekki er nægjanlegur agi í ríkisrekstrinum hjá undirstofnunum ríkisins.