143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við hér í þinginu hljótum að fjalla um þær skýrslur sem berast okkur og það hlýtur að vera verkefni nýrra stjórnvalda að láta endurskoða hvernig skýrslur berast þinginu. Ég ætla samt að leyfa mér að fjalla um skýrsluna sem Ríkisendurskoðun birti fyrir skömmu síðan. Þar kemur fram að munurinn á tekjum og gjöldum var 16,7 milljarðar en ekki 28,5 milljarðar eins og áætlað hafði verið. Allir hljóta að fagna því að hallinn er minni en áætlað var og allir hljóta líka að fagna því hvernig tekist hefur að snúa stöðu ríkissjóðs við á síðustu árum frá því að vera með halla sem nam á þriðja hundrað milljarða og í það að nú hefur fjárlagafrumvarp verið lagt fram fyrir árið 2014 sem gerir ráð fyrir hallalausum fjárlögum og það þrátt fyrir að stjórnarmeirihlutinn hafi ákveðið að nýta ekki að fullu tekjur sem gamli stjórnarmeirihlutinn hafði samþykkt. Þetta lítur út fyrir að vera eins gott og við getum vænst miðað við aðstæður en það helsta sem heyrist frá ríkisstjórninni er að allt hafi verið mikið verra en frá hafi verið sagt eða útlit hafi verið fyrir þegar hún tók við. Það er einfaldlega ekki rétt.

Auðvitað erum við ekki komin yfir alla þá fjárhagslegu erfiðleika sem hafa verið hér, enda hefur enginn spáð því fyrir að við yrðum komin yfir þá á þessum tíma. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni að í skýrslu Ríkisendurskoðunar skuli koma fram að vísbendingar séu um að slaknað hafi á fjárhagslegu aðhaldi í ríkisrekstrinum. En þá þurfa þeir sem eru ábyrgir fyrir stjórn landsins og ríkisins að láta til sín taka. Það er hlutverk stjórnvalda. (Forseti hringir.) Nú er að heyra og sjá hvað ný stjórnvöld (Forseti hringir.) ætla að gera. Virðulegur forseti. Það skilar engum árangri að segja gamla ríkisstjórnin (Forseti hringir.) þetta og gamla ríkisstjórnin hitt.