143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mál. Þessi skýrsla er mikill áfellisdómur yfir síðustu ríkisstjórn. Það sem er alvarlegt í því og ég hvet alla þá sem fylgjast með þessu að skoða það, er agaleysi í ríkisfjármálum, 38% af fjárlagaliðunum fóru fram yfir. Hv. þingmaður benti á að árangur hafi náðst rétt eftir bankahrunið. Hann fór strax og ef við berum saman árin varðandi fjölda fjárlagaliða sem fóru fram yfir höfum við ekki séð þetta í langan tíma, ekki bara á þessum sex mánuðum heldur líka í seinni hluta síðasta kjörtímabils. Því miður voru síðustu fjárlög gúmmítékkafjárlög og ég skil ekki hvernig hv. þingmanni dettur í hug að tala af fullri alvöru um fjárfestingaráætlun. Ég hvet menn til að skoða þær fjárfestingar sem átti að fara í, t.d. varðandi Perluna. Þar átti að setja í leigu 1,2 milljarða á 15 árum. Það átti að fara í uppsetningu á sýningu fyrir 500 millj. kr. og þá var ótalinn rekstrarkostnaður upp á 130 millj. kr. upp á hvert einasta ár.

Þetta er auðvitað engin fjárfesting. Hér horfum við líka á menn hamast við að segja að það sé veiðigjaldabreytingunni að kenna að við séum með fjárlög með halla upp á 30 milljarða. Skoðum staðreyndirnar, 85% af þeim halla er til kominn út af agaleysi og vanáætlunum síðustu ríkisstjórnar. Það geta allir skoðað sem vilja. Það er hrein og klár blekking að koma hér upp hvað eftir annað og segja að þetta hafi eitthvað að gera með breytinguna á veiðigjöldunum.

Íbúðalánasjóður er gríðarlegt vandamál. Við erum núna búin að setja rúmlega 40 milljarða í þann banka. (Forseti hringir.) Að öllu óbreyttu þurfum við setja 35–70 milljarða og (Forseti hringir.) allar áætlanir síðustu ríkisstjórnar um Íbúðalánasjóð hafa ekki gengið eftir, þvert á móti.