143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

nauðungarsala.

150. mál
[12:10]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er nefnilega málið; lögmæti lánanna. Ég minni á að hæstv. ríkisstjórn lagði fram lagafrumvarp sem búið er að samþykkja hér á Alþingi, sem á að flýta öllum dómsmálum er viðkemur lögmæti þessara lána en málið er það að þó að lánin verði dæmd ólögleg þá munu lánin aldrei hverfa. Þú þarft alltaf að borga eitthvað sanngjarnt af láninu þó að það verði dæmt ólöglegt. Þó að leiðrétt verði út af skuldamálunum eða út af ólögmæti lánanna þá er fólk alltaf með einhverja greiðslubyrði eftir það.

Ég er að tala um fólk sem hefur kannski í fjögur ár ekki getað greitt neitt af íbúðarláninu — af hverju ættum við að fresta því að það sé leyst úr þeim vanda? Um það snýst málið. Ég vil ekki halda fólki — fólki sem mun ekki geta staðið við lánið sitt, sama hvaða úrræða gripið verður til, nema við borgum upp fyrir það lánið — í skuldaklafa áfram. Það er á þeim forsendum sem mér finnst þetta frumvarp ganga of langt. Ég er sammála því að það þarf að hjálpa ákveðnum hópi en mér finnst þetta ganga of langt af því að við erum að gera vissum hópi óleik með þessu.