143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

nauðungarsala.

150. mál
[12:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, að frumvarpið gangi of langt og að hv. þingmaður vilji ekki festa fólk til lengdar í aðstæðum sem það ræður ekki við. Ég er alveg hjartanlega sammála. Hins vegar hefði ég nú haldið að fólk gæti alla vega valið um það. Ef fólk vill borga af lánum sínum og getur borgað af þeim þá væntanlega getur það gert það, en ef fólk vill fara á hausinn þá er það væntanlega möguleiki líka. Hér er spurningin enn og aftur, ekki um aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar gagnvart þessum skuldugu aðilum heldur snýst málið fyrst og fremst um lögmæti samninganna.

Við gætum þannig séð, a.m.k. í fyrri hluta umræðunnar, bara gleymt alfarið aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar og fókuserað eingöngu á lögmæti samninganna sem liggur ekki enn fyrir. Ég held ekki að fólki sé gerður greiði með því að selja ofan af því og síðan komi seinna meir í ljós — kannski, við vitum það ekki — að samningarnir hafi verið ólöglegir. Þótt skuldirnar fari ekki erum við auðvitað ekki að tala um að gefa fólki peninga eða leysa öll vandamál alls fólks í landinu enda er það óhugsandi. Það sem við getum hins vegar gert er að fresta nauðungarsölum þar til lagalegri óvissu hefur verið eytt.

Ég furða mig svolítið á því að þetta frumvarp gangi of langt því að sérstaklega var miðað að því að ganga eins skammt og mögulegt er, samt með því að gera yfir höfuð eitthvað. Hér er lausnin afmörkuð við Íbúðalánasjóð vegna þess að hann tilheyrir ríkinu og þegar allt kemur til alls Alþingi og þjóðinni sjálfri. Ég velti því fyrir mér hvernig væri hægt að ganga skemur ef það á í raun og veru að fara út í þessa aðgerð. Ég furða mig svolítið á þeim orðum en viðurkenni þau vissulega sem svar. Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta ekki um skuldaleiðréttingar hæstv. ríkisstjórnar, ekki aðallega (Forseti hringir.) heldur um lögmæti samninga.