143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir að taka upp þetta mál og að vekja athygli á landsbyggðunum, eins og ég kalla það nú í fleirtölu, þ.e. þeirri mismunandi aðstöðu sem er á landinu varðandi heilbrigðisþjónustu.

Það vekur mér að vísu von að hér er það hv. stjórnarþingmaður sem vekur athygli á því að í heilbrigðiskerfinu hafi átt sér stað niðurskurður. Það sem ég vil vekja athygli á og kom mér gríðarlega mikið á óvart að þeim niðurskurði skuli vera haldið áfram. Fyrir rúmu ári, í fjárlögum 2013, var enginn niðurskurður í heilbrigðiskerfinu vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn gerði sér grein fyrir að komið væri að þolmörkum. Þess vegna vekur það auðvitað áhyggjur og um leið von þegar hv. stjórnarþingmenn eru farnir að vekja athygli á því að niðurskurð á næsta ári verður að draga til baka. Við erum að tala um að á landsbyggðinni eigi að draga niður um 220 millj. kr. í fjárlögum fyrir 2014 til viðbótar, þ.e. byrja niðurskurðinn aftur. Það sama gildir um heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu með 130–140 millj. kr. ofan á það sem á undan er gengið. Ég vil bara vekja athygli á því að þetta gengur engan veginn upp. Menn verða að endurraða þarna og er full ástæða til þess.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að við verðum að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna í heild sinni. Við verðum að þora að skoða alla hluti en eftir sem áður megum við ekki gera það þannig að við tilkynnum í fjárlögum að það eigi að spara með því að sameina stofnanir. Það gerum við fyrst og síðan kemur sparnaður í ljós ef hann verður afleiðing af slíkum breytingum. Það þarf að tryggja þjónustuna um allt land en það er ekki hægt að setja það þannig upp að við séum að velja á milli aukinnar sérhæfingar og minni fjárframlaga á landsbyggðinni á móti því að halda úti sjúkrahúsþjónustu um allt land. Það mun aldrei verða þannig.

Hv. þingmaður nefnir réttilega að búið sé að fækka úr 29 fæðingarstöðum niður í níu en rétt er að benda á að aðeins ein af þeim breytingum hefur orðið á síðustu fjórum árum eftir hrunið. Allar hinar höfðu gerst áður. Þessi breyting er langtímabreyting en ég treysti bara á að menn forgangsraði núna (Forseti hringir.) og breyti fjárlögum.