143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp um einföldun regluverks. Við erum ekki að ræða tillögur hagræðingarnefndar ríkisstjórnarinnar. Ég skal hins vegar leitast við að svara spurningu hv. þingmanns þó að hún tengist ekki þessari umræðu beint.

Ég geri ráð fyrir að það sem hagræðingarhópurinn eigi við með þessu orðalagi sé að hámarka ávinninginn af eftirliti. Ég get nefnt sem dæmi eftirlit með skattsvikum. Hv. þingmaður hefur haldið því fram í þessum ræðustól að hver króna sem sett er í eftirlit með framkvæmd skatta og skattsvikum skili sér tífalt til baka. Augljóst má vera að það getur ekki átt við um hverja einustu krónu endalaust. Þá væri langhagkvæmasti tekjustofn ríkisins að auka skatteftirlit. Einhvern tímann komum við að því marki að það skilar sér ekki lengur í árangri. Það er það sem ég geri ráð fyrir að hagræðingarnefndin sé að tala um.