143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri á hæstv. forsætisráðherra að hann kýs að ræða punktana 111 á einhverjum öðrum vettvangi. Það er sjálfsagt að verða við því en við skulum halda áfram með regluverk atvinnulífsins vegna þess að hæstv. forsætisráðherra nefndi það sem er ákaflega mikilvægt sem er samkeppnin. Ég vil spyrja hann þegar hann leggur upp með þá línu að auka ekki reglubyrðina hvort það sé ekki svo í þróun á okkar löggjöf.

Að verulegu leyti hefur reglubyrði aukist, ekki síst í samkeppnislöggjöfinni þar sem verið er að reyna að beita löggjöfinni til að verja lítil fyrirtæki eða venjuleg fyrirtæki fyrir markaðsráðandi fyrirtækjum, fyrir fjölþjóðafyrirtækjum sem ráða yfir æ öflugri tækjum til að berja af sér samkeppni, setja samkeppnisaðila á höfuðið og koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti haslað sér völl í atvinnulífinu. Getur það ekki beinlínis reynst hættulegt fyrir samkeppnina (Forseti hringir.) ef við ætlum að takmarka svigrúm löggjafans til að setja reglur til að vernda samkeppnina á markaði?