143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fljótu bragði virkar samt eins og þarna sé um að ræða ákveðna þjöppun á valdi þar sem menn fara með fulltrúa frá hagsmunaaðilum á einn stað og aðrir eigi þá ekki sama aðgang að því að gera athugasemdir í þinginu.

Mig langar aðeins að fá að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort ég skilji það rétt að formleg umsögn eigi að vera um hvert frumvarp á vinnslustigi, eins og mátti kannski skilja, að þarna sé kominn hópur sem er jafnvel ráðgjafi hópa sem eru þverpólitískt og þverfaglega skipaðir til að semja lagafrumvarp. Ég hefði áhyggjur af því ef þarna væri kominn einhver eftirlitsaðili á eftirlitsaðila fyrir hönd þingsins við frumvarpasmíði.

Fram kom að þarna eigi bara ákveðin mál að fara í gegn og því langar mig að óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra nefni dæmi um mál sem fara mundu undir regluráð, og kannski þá um leið mál sem ekki mundu fara þangað.