143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að það sem var hvað mest til umræðu og laut að utanvegaakstri var sett í sérstakan farveg hjá tilteknum starfshópi, eins og vel er þekkt í lagaumhverfi okkar og var til að mynda gert við umræðu um fjölmiðlalög þar sem settur var sérstakur starfshópur um eignarhald á fjölmiðlum, og í ljósi þess að hæstv. ráðherra nefndi hér tímabundið bann við framkvæmdum, sem er auðvitað vel þekkt úr öðrum lögum, ég nefni bara lög um húsafriðun svo dæmi sé tekið þar sem skyndifriðanir tíðkast, og í ljósi þess að hæstv. ráðherra nefndi orðskýringar, sem ég fæ mig nú ekki til að trúa að séu aðalmálið í grundvelli þessara laga, þá hlýt ég að túlka orð hæstv. ráðherra sem svo að ætlunin sé að hverfa frá þeirri heildarhugmyndafræði sem sett er fram í frumvarpinu. Það eru auðvitað veruleg tíðindi, þó að hæstv. ráðherra segi að byggja eigi á fyrirliggjandi vinnu, þeirri heildarhugmyndafræði sem er gegnumgangandi í frumvarpinu hvað varðar varúðarregluna og sérstaka vernd, að það eigi virkilega að hverfa frá henni til frambúðar. Er þetta rétt, hæstv. ráðherra?