143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er mjög áhugasöm um að heyra frá honum sjónarmið í ljósi þess að hann tilheyrir tiltölulega nýrri stjórnmálahreyfingu, stjórnmálahreyfingu sem kom fyrst inn á Alþingi í síðustu kosningum og hv. þingmaður var ekki hér á síðasta kjörtímabili. Ég heyrði það á máli hv. þingmanns að hann undraðist þau vinnubrögð að boða brottfall laga, getum við sagt, sem eiga að taka gildi í apríl, rétt eftir að þau eru samþykkt, má segja. Ég tók ekki eftir því að hv. þingmaður nefndi það.

Mig langar að spyrja hann út í hvernig hann sér fyrir sér áframhaldandi vinnu því að hv. þingmaður sagði: Hvað á að koma í staðinn? Var ekki eitthvað sem átti að halda eftir? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að Alþingi Íslendinga eigi að fara með þetta frumvarp? Finnst hv. þingmanni eðlilegt að farið verði í gegnum það með öllum þeim sem komu að vinnunni við lögin sem eiga að taka gildi í apríl? Finnst hv. þingmanni eðlilegt að þeir verði kallaðir til samráðs í hv. umhverfis- og samgöngunefnd? Finnst hv. þingmanni eðlilegt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd reyni að gera atlögu að því að gera einhverjar tillögur í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði áðan, og ég er honum hjartanlega sammála, um að mjög mikið hafi breyst frá árinu 1999, bæði hvað varðar ferðaþjónustu, aðgang að náttúrunni og líka í viðhorfum til náttúruverndar og í rannsóknum á náttúrunni? Hvernig finnst hv. þingmanni að við eigum að vinna málið áfram hér á Alþingi? Ég er mjög áhugasöm um að heyra fersk sjónarmið í því máli.