143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu svari. Ég hefði jafnvel viljað sjá hv. þingmann vera skeleggari í anda þess að vera hér nýr þingmaður Pírata sem ég hélt að væru uppreisnargjarnir og ófeimnir við að brjóta hefðir. (Gripið fram í.) Það er vissulega rétt að oft hefur meiri hlutinn keyrt sína hluti fram hér, en það eru engin lögmál í þeim efnum. Ég nefndi dæmi frá fyrri tíð þegar meðal annars umhverfisnefnd var mjög sjálfstæð í störfum og ekkert endilega mikil landamæri meiri hluta og minni hluta á þeim tímum.

Ég gef mér að það hljóti að vera margir umhverfisþenkjandi þingmenn innan meiri hlutans líka sem líður ekki allt of vel með þetta. Það bara getur ekki verið að öllum meiri hlutanum finnist þægilegt að eiga að fara að standa að því með ráðherra sínum að stúta nýju náttúruverndarlöggjöfinni. Eigum við ekki að láta á það reyna, láta menn njóta vafans? Þingið hefur öll úrræði í höndum sínum ef það kýs að færa vinnuna inn á það spor að skoða og afmarka þá þætti sem raunveruleg ástæða er til að skoða í þessum lögum, (Forseti hringir.) eftir atvikum leggja til frestun á gildistöku einhverra þátta, kaupa sér aðeins meiri tíma (Forseti hringir.) og leysa málið sjálft.