143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hún kemur hingað inn sem varaþingmaður og sér þennan vinnustað kannski í öðru ljósi en við hin sem höfum verið hérna aðeins lengur. Talandi um trúverðugleika í stjórnmálum langar mig að spyrja hvort hún telji að þegar verið var að semja um að fá lögin í gegn í vor hafi verið heilindi þar á bak við eða hvort meiningin hafi alltaf verið að fella lögin síðan úr gildi, að draga fólk á asnaeyrunum með því að leita allra lausna til að ná sáttum í málinu og samþykkja það með miklum meiri hluta á þingi þegar meiningin hafi ekki rist dýpra, að það hafi í raun ekki verið einlægur vilji fyrir því ef þeir flokkar kæmust til valda sem var lögð mikil vinna í að semja við, eins og við hagsmunaaðila sem höfðu haft uppi gagnrýni og unnið með stjórnarandstöðunni í málinu, að ná niðurstöðu og breiðri sátt í þessu stóra máli sem snertir alla íbúa landsins. Vissulega voru mörg önnur mál sem komust ekki á dagskrá út af því að menn töldu að verið væri að ná miklum áfangasigri með því að koma þessu brýna máli í gegn á hinu háa Alþingi, allir menn við það borð væru að vinna af heilindum. Hvað telur hv. þingmaður, utan frá séð? Ég veit að hún fylgdist alveg með þinglokum á síðast vorþingi.