143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér afturköllun laga um náttúruvernd, laga sem voru samþykkt síðastliðið vor og hefðu að öllu óbreyttu átt að taka gildi 1. apríl á næsta ári. Um er að ræða heildstæða löggjöf um náttúruvernd sem leysa á af hólmi lög um náttúruvernd frá 1999 og ég ætla að stikla á stóru í þessari umræðu um tilgang laganna.

Tilgangur laganna er að vernda fjölbreytta íslenska náttúru, að undirstrika þá skyldu almennings að ganga vel um náttúru landsins og tryggja rétt almennings til að fara um landið jafnframt því að virða hagsmuni landeigenda. Allt þetta þarf að spila vel saman, horfa þarf til réttar almennings en líka virða rétt landeigenda. Ég tel að eins og um þetta mál er búið í frumvarpinu sé þess gætt að hafa slíkt jafnvægi. Að þessari vinnu hefur komið fjöldinn allur af fólki, eins og fram hefur komið, allt frá því að vinnan hófst árið 2009 við að kortleggja ítarlega íslenska náttúru og undirbúa nýja löggjöf um náttúruvernd. Afurðin af því var viðamikil skýrsla, hvítbókin, sem ég tel merkilegt verk og sýna fram á hve vönduð og yfirgripsmikil vinna hefur verið unnin af fjölda fólks, leikum sem lærðum.

Í framhaldi af þeirri vinnu var lagt fram frumvarp að lögum um náttúruvernd sem samþykkt var síðastliðið vor að undangenginni mikilli vinnu í umhverfis- og samgöngunefnd en mikill fjöldi gesta kom fyrir nefndina og fjöldi umsagna barst. Komið hefur verið inn á það, í ræðum hv. þingmanna, að mikil viðhorfsbreyting hefur orðið gagnvart náttúruvernd á ekki lengri tíma; ef við horfum bara aftur til ársins 1999 þegar náttúruverndarlögin voru síðast endurskoðuð og ég held að þar komi margt til. Við þekkjum baráttuna um hvort fara ætti út í stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun. Það var í raun ákveðin vítamínsprauta inn í hjörtu náttúruverndarsinna að menn yrðu að rísa upp því að náttúran talar ekki sjálf, hún þarf að eiga öfluga talsmenn vítt og breitt um landið til að verja hana ágangi og ofnýtingu oft gráðugra manna sem telja að peningaöflin og lögmál markaðshyggjunnar eigi að ráða á kostnað náttúru landsins og sérstöðu hennar.

Samspil manns og náttúru hefur breyst mikið á liðnum árum og því er mikilvægt að vönduð löggjöf nái yfir alla þætti sem snerta umgengni almennings við náttúru landsins. Á undanförnum árum og kannski áratugum — kannski síðustu 10 til 15 árin — hefur umferð farartækja eins og fjórhjóla og sexhjóla aukist mjög víða, ekki bara á hálendinu heldur líka nær þéttari byggð. Það er líka ágangur af reiðmennsku, hópum reiðmanna sem fara um landið til að upplifa íslenska náttúru, og ekkert nema gott um það að segja, en fara þarf varlega um viðkvæma náttúru. Það getur valdið náttúruspjöllum þegar stór hópur reiðmanna fer um á svæðum sem eru viðkvæm, svæðum sem ekki hefur áður verið mikill ágangur á. Við þurfum að afmarka svæði sem farið er inn á með slíkum hætti og ég vil líka nefna aukna ásókn í að fara á hreindýraveiðar og nýta til þess vélknúin farartæki.

Með aukinni vitneskju og framþróun náttúruvísinda hefur verið að þróast nýtt réttarsvið, sem er umhverfisréttur. Ólíkir hagsmunir takast á og því er mikilvægt að skýra vel í lagatexta réttindi almennings og einnig þær skyldur sem við höfum undirgengist með alþjóðasamningum. Með því lagafrumvarpi sem samþykkt var síðastliðið vor um náttúruvernd tókst að mæta ólíkum sjónarmiðum og hagsmunum án þess að kasta fyrir róða því meginmarkmiði laganna að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru. Ég tel að menn hafi af mikilli samviskusemi og vandvirkni unnið að því á síðustu vikum þingsins að mæta ólíkum sjónarmiðum.

Nokkrar breytingar koma fram í nýjum lögum um náttúruvernd. Má þar nefna varúðarregluna sem beita má til verndar náttúrunni svo að koma megi í veg fyrir óafturkræf náttúruspjöll, t.d. við skipulag og framkvæmdir þar sem ónógar upplýsingar liggja fyrir um áhrif á náttúruna. Þá þarf að rannsaka hvernig koma megi í veg fyrir spjöll eða lágmarka þau. Í þessum nýjum lögum er tekið fastar og skýrar á banni við utanvegaakstri og mér heyrist það samdóma álit allra sem að málinu hafa komið að á því þurfi að taka miklu fastar en verið hefur þó að menn greini kannski á um útfærsluna. En ég tel það sjónarmið eiga stuðning heilt yfir — sjónarmiðum þeirra hópa sem vilja hafa þetta sem frjálsast hefur verið mætt og ég held að allir skilji að einhvers staðar verða menn að mætast í málamiðlun og að náttúran eigi að njóta vafans en ekki mannfólkið með kröfur sínar hverju sinni.

Staða almannaréttar í umgengni um landið er styrkt. Akandi umferð er tekin inn í almannarétt á vegum og vegslóðum. Það er skýrt að allur akstur utan vega er háður mjög ströngum skilyrðum. Það er verið að vinna að uppbyggingu kortagrunns en gerð kortagrunns fyrir landið er forsenda þess að hægt sé að taka akstur á vélknúnum ökutækjum inn í almannaréttinn. Breytingar eru gerðar á skilgreiningu á ræktuðu landi þar sem land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi. Þetta var mál sem kom þó nokkuð mikið inn á borð þeirra sem voru að reyna að semja um lok þessa máls í vor en stóraukinn ferðamannastraumur til landsins kallar á nákvæmari upplýsingar um hvernig ferðast má um landið og umgangast náttúruna. Ég tel því mjög brýnt að við drögum ekki lappirnar og hröpum ekki niður til ársins 1999.

Gagnrýnin sem kom fram á framangreind atriði og önnur sem ekki voru tíunduð við umfjöllun um frumvarpið í vor — ég tel að því hafi verið mætt að miklu leyti við lokavinnslu frumvarpsins. Ég vék að því í andsvörum í gær að ég hefði velt því fyrir mér hvort menn hafi ekki verið heilir í þeirri vinnu, hvort menn hafi verið að kaupa sér tímafrest, stjórnarandstaðan sem þá var hér, og aldrei ætlað annað en að kippa lögunum úr gildi. Auðvitað vona ég að svo sé ekki og ekki vil ég ætla mönnum það fyrir fram en miðað við að hæstv. ráðherra gengur svo bratt fram þá verð ég að viðra þessar hugsanir mínar. Ég hafði ekki trú á öðru og hafði ekki aðrar spurnir af þessari vinnu — sem vissulega ýtti mörgum öðrum málum út af borðinu í samningum við þinglok í vor — en að þar væru menn að leggja sig fram um að ná lendingu þvert á flokka.

Það vekur því furðu að hæstv. umhverfisráðherra sjái ástæðu til að afturkalla lögin í heild og telji það leið til að ná víðtækari sátt í þessum viðkvæma málaflokki, þar sem öll þessi mikla og faglega undirbúningsvinna hefur farið fram í mörg ár. Hæstv. ráðherra tíndi til ýmsa þætti í framsögu sinni sem hann taldi réttlæta svo stóra ákvörðun að afturkalla lög um náttúruvernd. Talað var um skort á samráði og aukin boð og bönn. Ég get ekki séð nein merki um að skortur hafi verið á samráði. Vissulega verður erfitt að ná þeim punkti að allir séu nákvæmlega sammála. Allir þurfa einhvers staðar að gefa eftir en ég held að ekkert hafi skort á samráðið en vel má vera að ekki hafi allir gengið fullkomlega ánægðir frá borði. En hvenær gera menn það og við hvaða aðstæður? Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvort þannig sé það yfir höfuð þegar verið er að vinna að stóru og viðamiklu máli sem þessu, þar sem allir þurfa að mætast einhvers staðar en ekki bara á forsendum eins.

Hæstv. ráðherra talaði um að verkaskiptingin væri ekki nógu skýr og að skipulagsvald sveitarfélaga væri ekki nógu skýrt. Já, þetta er eitt af þeim málum sem menn höfðu vissulega ólíka sýn á en ég tel þetta ekki stórmál, það væri eðlilegt að umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta og sjái hvort menn gætu lagfært eitthvað án þess að rífa þurfi upp heilt frumvarp og afturkalla það. Allt er þetta frekar óljóst og ekki skýrt með neinum rökum sem réttlæta slíka málsmeðferð. Ef ástæða þætti til að lagfæra einhverjar greinar mætti fela umhverfis- og samgöngunefnd að vinna þá vinnu þar sem nægur tími er til stefnu þar til lögin eiga að taka gildi næsta vor.

Því miður lyktar þessi ráðstöfun af því að eitthvað annað hangi á spýtunni eins og það að endurskoðun opni á Norðlingaölduveitu. Ég trúi því varla að um það sé að ræða að ríkið horfi til þess að spara 105 millj. kr. á kostnað framtíðarhagsmuna íslenskrar náttúru, en ég skal ekki segja. Eitt er víst að þetta eru ekki vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar hjá neinu stjórnvaldi og er ekki leið til að ná meiri sátt um umhverfisvernd í landinu. Kallað er eftir því úti í þjóðfélaginu að stjórnmálamenn sýni þann þroska að kasta ekki fyrir róða hugmyndum og faglegri vinnu sem miklir fjármunir og tími hefur farið í að útfæra og stendur fyrir sínu þó að ný pólitísk sýn sé hjá nýjum stjórnvöldum hverju sinni. Oftar en ekki er búið að vinna úr ólíkum sjónarmiðum og hagsmunum þegar niðurstaða er fengin í faglegri vinnu eins og þeirri sem lög um náttúruvernd byggjast á.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að fara ekki í utanvegaakstur en hafa frekar uppi varúðarnálgun í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar í sambúðinni við náttúru landsins.