143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skal alveg viðurkenna að það kom upp í mér þykkja hér í gær þegar ég sat undir því sem ég lýsti áðan. Mér fannst það ekki heillavænlegt að gera ráð fyrir því, eins og mér fannst hv. þingmaður gera í gær, að mál rynnu í gegnum þingflokk framsóknarmanna nánast órædd og óskoðuð, ég taldi ekki rétt að sitja undir því.

Ég get hins vegar sagt það og það hefur komið fram áður að hugsjónir um náttúruvernd og nýtingu náttúrunnar til góðra hluta er ekkert nýtt mál hjá Framsóknarflokknum, það hefur verið í umræðunni árum og áratugum saman. Forustumenn flokksins voru og eru til skamms tíma náttúruverndarmenn. Ég get nefnt Hermann Jónasson, Eystein Jónsson og Steingrím Hermannsson o.s.frv. Ég ítreka að við komum (Gripið fram í.) jú á umhverfisráðuneyti þannig að það sýnir hug okkar til þessara mála.

Hins vegar greinir okkur auðvitað á við fólk sem vill ganga lengra í aðrar áttir en við viljum gera, það er bara eðlilegt, það er eðlilegur skoðanamunur. En það verður seint sagt um Framsóknarflokkinn að hann sé ekki náttúruverndarflokkur. Ég vil benda á að flokkurinn á ríkan stuðning og ríkar rætur meðal bænda sem eru mestu landbótamenn þessa lands og hafa gengið hvað lengst fram í því að vernda landið og bæta það landi og lýð til heilla.