143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi vaxtakostnaðinn — ég vona að ég sé ekki að misskilja hv. þingmann — en það er sem sagt þannig að vegna þess að skuldabréfi við Landsbankann var ekki breytt yfir í óverðtryggt þá eru vaxtagjöldin 7,5 milljörðum kr. lægri. Ef til þess hefði hins vegar komið væri afkoman 7,5 milljörðum kr. lægri en við erum hérna að tala um. Hún hefði nálgast það að vera 40 milljarðar kr. í mínus. (Gripið fram í: Nei.) Það hefðu fallið til 7,5 milljarðar kr. til viðbótar í vaxtagjöld ef breytingarnar hefðu átt sér stað sem að var stefnt. Þetta er sem sagt að bæta afkomu ríkissjóðs miðað við það sem áður hafði verið áætlað, að bréfinu skuli ekki hafa verið breytt. Ég held að það hljóti að vera uppi einhver misskilningur um þetta.

Varðandi tekjurnar að öðru leyti er hér mikið komið inn á breytingar á veiðigjöldunum. Við hv. þingmaður erum einfaldlega ekki sammála um þær forsendur sem lágu þeim til grundvallar og það er í sjálfu sér alveg sérstök umræða. Höfum það bara í huga að útgerðin mun á þessu og næsta ári skila í skatta, gjöld og veiðigjöld þar með hærra framlagi til ríkisins en nokkru sinni fyrr. Hins vegar er það svo á árinu 2013 að skatttekjur utan veiðigjalda, allar aðrar skatttekjur, eins og segir í töflum í frumvarpinu, skila sér ekki. Það munar um 13,5 milljörðum. Aðrar rekstrartekjur skila sér ekki heldur. Þar koma arðgreiðslur við sögu, veiðigjaldið er þar inni í, sala eigna er 4 milljörðum undir áætlunum. Þetta staflast allt saman og veldur því að frávikin í heildartekjum ríkissjóðs eru rétt undir 24 milljörðum kr. og þar af er (Forseti hringir.) veiðigjaldið bara lítið brot í sjálfu sér, um 3 milljarðar kr. af 24.