143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

fjármagn til skuldaleiðréttinga.

[10:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við erum nú í óðaönn hér í þingsal að ræða fjáraukalög og frumvarp til fjárlaga, fjársveltið er víða og alls staðar vantar peninga.

Á sama tíma lesum við í fregnum, og kemur okkur svo sem ekkert á óvart miðað við umræðuna í kosningabaráttunni og undanfarið, að fara eigi í skuldaaðgerðir fyrir heimilin. Þá eru allt í einu til einhvers staðar á bilinu 90–130 milljarðar samkvæmt fregnum. Mér finnst það svolítið undarleg staða að vera annars vegar að ræða hér fjáraukalög og fjárlög þar sem við bítumst um hverja krónu en svo allt í einu samkvæmt þessum fregnum eru til svona rosalega miklir peningar.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra — bara eins og barn: Hvaðan koma peningarnir? Koma þeir að handan eða hvaða peningar eru þetta?