143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

aldursmörk heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

190. mál
[16:57]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra svör heilbrigðisráðherra við þessu og ég þakka líka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að spyrjast fyrir um þetta mál. Mín skoðun er að endurskoða eigi þessa grein laganna. Ég tel mikinn akk í því fyrir þjóðfélagið að hafa lækna starfandi lengur en til sjötugs ef þeir kjósa svo. Þetta er auðlind sem við eigum að nýta okkur og þetta á ekki bara um lækna, þetta á að gilda um fleiri heilbrigðisstéttir. Reyndar tel ég að við Íslendingar þurfum að skoða eftirlaunaaldursmörkin alveg upp á nýtt vegna þess hve stór hluti þjóðarinnar verður einmitt fólk í eldri aldurshópum á komandi árum. Oft er þetta fullfrískt fólk með mikla starfsorku sem hefur jafnvel engan áhuga á að setjast í helgan stein.