143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst aðeins skárri tónn vera að komast í umræðuna vegna þess að ég skynja það hjá hv. þingmanni, formanni atvinnuveganefndar Alþingis, að hann sé opinn fyrir því að leita útgöngu með þetta mál. Ég skynja þann tón. Þau frumvörp sem hann vísar til eru frumvörp frá ríkisstjórninni sem kváðu á um framlengingu á undanþágu, ekki að við værum að festa í lög þennan aðskilnað. Við vorum andvíg því. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur alla tíð verið mjög eindregið andvíg því og hefði ekki stutt slíkt, en við studdum hins vegar og vildum framlengja frestinn sem gerður var.

Nú spyr ég, hæstv. forseti: Væri ekki ráð að fresta umræðunni og fá málið aftur tekið fyrir í atvinnuveganefnd þingsins þar sem við færum yfir gang mála á síðasta kjörtímabili og endurmætum afstöðu okkar? Ég segi þetta ekki síst í ljósi þess að ég skynja að einhver taug bærist í formanni atvinnuveganefndar þingsins sem mig grunar að sé á þeim jákvæðu nótum sem ég hef talað í þessu máli.