143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

209. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd atvinnuveganefndar mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

Í 1. gr. frumvarpsins segir:

Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Ákvæði 6. gr. koma til framkvæmda 1. október 2014.

2. gr. er um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Í greinargerðinni segir, virðulegi forseti:

Lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi tóku gildi 10. apríl 2013. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að 3. og 4. gr., þar sem mælt er fyrir um skilyrði um lágmarksorkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, komi til framkvæmda 1. janúar 2014. Markmið laganna er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti.

Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistöku sektarákvæða í 6. gr. laganna verði frestað til 1. október 2014, þ.e. níu mánuðum eftir að 3. og 4. gr. hafa komið til framkvæmda. Verði frumvarpið að lögum hefur Orkustofnun því ekki heimild til að beita sektum fram að þeim tíma. Nefndin telur eðlilegt að beita ekki sektum fyrst um sinn þó að 3. og 4. gr. verði komnar til framkvæmda, enda geti komið upp ófyrirséð tæknileg vandamál eða tafir við að koma upp nýjum búnaði til íblöndunar eða dreifingar endurnýjanlegs eldsneytis. Einnig má benda á að fresturinn verði reynslutímabil fyrir Orkustofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Þar sem gildistöku laganna var flýtt við meðferð frumvarps til þeirra á 141. löggjafarþingi má segja að það sé sanngirnismál að beita ekki sektum í þennan tíma.

Nefndin hefur fjallað um málið ásamt fulltrúum frá Atlantsolíu, Carbon Recycling International, Lífdísil ehf., Mannvirkjastofnun, N1, Skeljungi og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Fram komu sjónarmið um að fresta bæri gildistöku laganna þar sem tími til undirbúnings væri ekki nægur. Bent var á að upp hefðu komið mál á síðari stigum undirbúnings sem leiddu til þess að ekki væri unnt að uppfylla markmið laganna um 3,5% hlut eldsneytis í samgöngum. Nefndin telur ljóst að nokkrir seljendur hafi reynslu af sölu endurnýjanlegs eldsneytis en aðrir séu að stíga sín fyrstu skref á því sviði.

Nefndin fékk upplýsingar frá atvinnuvegaráðuneyti um að ráðuneytið hefði haft samband við seljendur eldsneytis ásamt Samtökum iðnaðarins sem hefði aflað upplýsinga frá innlendum framleiðendum. Eldsneytissalar töldu sumir ekki ástæðu til að fresta gildistöku en aðrir tóku undir ósk um frestun. Innlendir framleiðendur hefðu hins vegar haft áhyggjur af frestun gildistöku þar sem aukinn kraftur og fjármagn hefði verið sett í undirbúning og kæmi því frestur þeim ekki vel.

Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis um það frumvarp sem varð að lögum kemur fram að áætlað heildartekjutap fyrir ríkissjóð þegar lögin verða komin að fullu til framkvæmda sé samtals um 1.150 millj. kr. á ári. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar frá 14. mars 2013 (þskj. 1259 á 141. löggjafarþingi) kemur fram að þetta tekjutap sé að öllum líkindum ofmetið og það nánar útskýrt þar. Í þessu sambandi er rétt að benda á að með lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, var tekið upp svokallað kolefnisgjald á kolefni af jarðefnauppruna. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga segir að kolefnisgjaldið sé „fyrsti liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum“.

Tekjur af kolefnisgjaldi árið 2013 eru áætlaðar um 3.200 millj. kr. og í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2014 samtals 3.350 millj. kr. Þeim tekjum er því ætlað að styðja við orkuskipti í samgöngum.

Nú þegar eru liðnir sjö mánuðir frá gildistöku laga nr. 40/2013 þó að 3. og 4. gr. komi ekki til framkvæmda fyrr en um áramót. Með hliðsjón af framangreindu og því að ljóst er að tvenns konar hagsmunir togast á í málinu leggur nefndin til að sektarákvæðum verði frestað eins og að framan er lýst. Það ætti ekki að draga úr þeim þunga sem er í orkuskiptum í samgöngum nú um stundir. Búast má við því að unnið verði af kappi að undirbúningi á öllum sviðum til að mæta hærra þrepi sölumarkmiðs 1. janúar 2015 en aðilar verða ekki sektaðir til 1. október 2014 nái þeir ekki að uppfylla sölumarkmið fram að þeim tíma.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nefndarálitinu var þetta mál afgreitt á síðasta löggjafarþingi, þ.e. 141. löggjafarþingi, í apríl á þessu ári. Um það myndaðist mikil samstaða í hv. atvinnuveganefnd þegar það var þar til umfjöllunar og má segja að þau tækifæri sem nefndarmenn sjá í þessu liggi kannski fyrst og fremst í því að við erum að horfa til þess að innan lands eru á ferðinni sprotafyrirtæki sem eru að hefja framleiðslu á eldsneyti. Annars vegar er þar um að ræða Carbon Recycling International sem er með verksmiðju við Svartsengi. Tilraunaverksmiðja þess hefur um nokkurt skeið framleitt um 1,5 millj. lítra af metanóli á ári. Þegar þessi lög voru innleidd á síðasta þingi var tekin ákvörðun um að stækka þá verksmiðju upp í full afköst sem eru um 5 millj. lítra á ári og síðan eru fyrirhugaðar framkvæmdir við enn meiri framleiðslu í næstu verksmiðju sem vonandi getur farið af stað á næsta ári ef upplýsingar mínar frá fyrirtækinu reynast réttar. Þar er um að ræða 50 millj. lítra verksmiðju sem er fyrsta alvöruverksmiðjan sem mun þá rísa og sú fyrsta af fleirum sem fyrirhugaðar eru. Þetta er mjög áhugavert mál og getur orðið mjög til eflingar á verðmætasköpun innan lands og að hluta til getur þetta nýst sem íblöndunarefni fyrir bifreiðaeldsneyti hér innan lands.

Það er ljóst að framleiðsluvörur þessa fyrirtækis munu ekki einar og sér ná að uppfylla þarfir olíufélaganna en annað fyrirtæki, Lífdísill, hefur einnig hafið framleiðslu á tilraunastigi sem hefur gengið vel og er með áform um að stækka og auka þá framleiðslu til muna í samvinnu við fyrirtæki sem meðal annars urðar sorp. Þar er um að ræða hugmyndir sem geta orðið til á næstu missirum og árum, mætti áætla 2016, þar sem hafin væri framleiðsla á jafnvel nokkrum milljónum lítra af lífdísil á hverju ári.

Forstjóri sænsks skipafélags mætti á fund í Hörpu í ágúst sl. sem var af því tilefni að erlendur aðili, einn sá stærsti á þessum markaði með metanól í heiminum, var að koma inn sem hluthafi í fyrirtækið Carbon Recycling International. Það var mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið að fá þann hluthafa inn í starfsemi sína. Hjá fulltrúa þessa sænska skipafélags kom fram að hann reiknaði með því að innan nokkurra ára mundi um helmingur af skipaflota þess félags nýta metanól til brennslu í skipum sínum. Stórir vélaframleiðendur, sem framleiða meðal annars skipavélar og vélar í stærri bíla, hafa þegar hafið framleiðslu á vélum sem ganga eingöngu fyrir metanóli. Það þarf ekki að velta því lengi fyrir sér, virðulegi forseti, hvaða áhrif það getur haft á eldsneytisnotkun okkar ef við getum nýtt á þessar eyðslufreku stóru vélar eldsneyti sem er framleitt hér innan lands og kannski í framhaldi af því mögulega, sem er alveg raunhæft og mjög líklegt, hafið útflutning á eldsneyti.

Þetta er auðvitað mjög spennandi og var mikil samstaða um það innan nefndarinnar að full ástæða væri til að hvetja innlend olíufélög til að horfa mjög til þessa þáttar og reyna eftir megni að nýta innlenda framleiðslu til íblöndunar í eldsneyti fyrir bifreiðar. Það verður að segja að almennt var tekið mjög jákvætt í þá skoðun þó að það kæmi greinilega fram hjá fulltrúum olíufélaganna að í heiminum í dag er ekki verið að blanda metanóli eingöngu í bensín heldur er það blandað einnig með etanóli, og etanól verður að flytja inn.

Það hefur eitthvað verið gagnrýnt við meðferð þessa máls að ríkið verði af ákveðnum skatttekjum við þessa breytingu. Það er alveg rétt, eins og kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi, og hinu fyrra sem var afgreitt hér í apríl, að þá var af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins reiknað með að tekjutap ríkissjóðs gæti orðið um 1.150 milljónir á ári. Það byggir á því að íblöndunarefnin, sem mögulega verða flutt inn, og verða flutt inn til þess að olíufélögin geti uppfyllt þessi skilyrði, eru ekki tolluð eða skattlögð með sama hætti og eldsneyti þegar það er flutt til landsins. Þetta er sem sagt undanþegið bensíngjaldi og þeim gjöldum sem leggjast á bensín.

Á móti kemur, eins og ég fór yfir áðan, að hér var lagður á sérstakur kolefnisskattur og hann var einmitt lagður á til þess að koma á samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum. Tekjurnar af þessu eru áætlaðar í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2014 um 3.350 milljónir.

Ef við viljum horfa sérstaklega á gagnrýni um að þarna verði tekjutap hjá ríkissjóði getum við með sama hætti sagt að við verðum fyrir miklu tekjutapi við innflutning á rafmagnsbílum, bílum sem ganga fyrir metangasi o.s.frv. þar sem nákvæmlega sömu aðferðum er beitt, þ.e. við tollum þessar bifreiðar ekki með sama hætti og þær bifreiðar sem eru fluttar inn og ganga fyrir hefðbundnu eldsneyti. Þetta verður alltaf togstreita en ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar allra að auka frekar veg eyðslugrennri bíla og þeirra farartækja sem ganga fyrir eldsneyti sem mengar minna. Það er mjög jákvætt að á annað þúsund bílar keyri hér á metangasi sem er framleitt innan lands, það er auðvitað mjög jákvæð þróun að við skulum sjá svo mikla aukningu í sölu rafmagnsbíla sem raun ber vitni. Þá verðum við auðvitað að mæta því með einhverri annarri skattlagningu vegna þess að þessi farartæki borga til dæmis ekki hið hefðbundna eldsneytisgjald og þannig verður ríkissjóður af tekjum sem hann áður hafði. Við höfum farið í aðra skattlagningu til að mæta tekjutapi ríkissjóðs og í raun að greiða fyrir þessari leið. Þetta er stór þáttur í því og um þetta mál er mikil samstaða innan atvinnuveganefndar.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þetta mál gangi til 2. umr. að lokinni þessari umræðu hér.