143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

195. mál
[19:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa þingsályktunartillögu og fagna henni. Hún er um margt mjög jákvæð og bara jákvæð. Ég trúi því jafnframt að Íþrótta- og Ólympíusambandið og sérsamböndin og íþróttahreyfingin í heild sinni fagni þessari tillögu og taki þátt í þessu. Auðvitað er ýmislegt gert og afreksstefna er til staðar, en við þurfum alltaf að uppfæra það sem vel er gert og við þurfum að kalla sem flesta aðila að málinu og fara í gegnum alla mælikvarða.

Til er ágætis hugmyndafræðileg nálgun í stjórnun í íþróttahreyfingunni sem heitir fyrirmyndarfélag. Ég get alveg séð fyrir mér þannig nálgun þegar komið er að skilgreiningum á því, afreksfólkinu, og þegar við förum að miðla fjármununum sem fara í afreksstarfið. Það er vandasamt.

Við eigum fullt af frambærilegu íþróttafólki. Þetta er eilítið sundurleitt í dag, það verður bara að segjast eins og er. Þetta er svo víðfeðmt og svo mikið starf er unnið. Það eru óljós mörk frá því að vinna á félagslegum nótum og yfir í það að verða afreksmaður, bæði eftir aldri, getu og ýmsum öðrum forsendum. Verið er að bæta í og ber að hrósa fyrir það, bæði í afrekssjóðinn, 15 millj. kr. ef ég man rétt, og það er verið að bæta í ferðasjóðinn.

En ég vil taka heils hugar undir að full ástæða er til að taka heildrænt á stefnumótun þegar kemur að íþróttum og ég tek undir það að það á við breitt yfir sviðið. Eins og fram kemur í ágætri greinargerð með málinu, og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór vel yfir hér áðan, þá er þetta auðvitað gríðarleg landkynning sem við þekkjum og er hægt að nefna ófá dæmin í því. Svo megum við aldrei gleyma að vera á vaktinni alla daga með forvarnagildi í íþróttum. Þarna eru fyrirmyndirnar og þess vegna er fjármagninu vel varið og heildræn stefnumótun á þessu sviði — það er klárt mál að allir munu fagna því.

Ég vil árétta það að fara verður betur yfir þá stefnu sem er til staðar og tengja fleiri aðila. Fullt tilefni er til að bæta þá umgjörð og taka tillit til allra íþrótta í þessum efnum. Að öðru leyti fagna ég þessari tillögu.