143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:05]
Horfa

Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannanöfn og með breytingum á mannanafnanefnd og ættarnöfnum. Frumvarpið er lagt fram af þingflokki Bjartrar framtíðar eins og hann leggur sig. Björt framtíð er nýtt stjórnmálaafl og við höfum kennt okkur við frjálslyndi. Það höfum við ekki gert bara til að skilgreina okkur á einhverjum hægri/vinstri skala heldur vegna þess að við trúum því að heimurinn sé fjölbreyttur og eigi að vera það og að einstaklingurinn eigi að ráða sínum einkahögum eins og mögulegt er.

„Maður er nefndur“. Þannig byrja ansi margar sögur og mannkynið á það sameiginlegt, a.m.k. síðustu aldirnar, að við heitum nöfnum og skírum okkur nöfnum. Íslensk mannanafnahefð er að mörgu leyti einstök og stórmerkileg en í seinni tíð höfum við stofnað til laga og reglna um hvað Íslendingar megi kalla sig og hvað þeir megi skíra börnin sín sem við teljum óþarfa þar sem einstaklingarnir séu fullkomlega færir um að velja sér og börnum sínum nöfn.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um mannanöfn þar sem við lítum ekki svo á að þau séu óþörf. Í lögunum eru mjög góðar greinar um þær skyldur að nefna börn o.s.frv. en lagt er til að allar tilvísanir til mannanafnanefndar, lykilhlutverks hennar sem er mannanafnaskrá, viðhald og reglur í kringum hana, verði felldar burt og að þessi mikilvægi þáttur sjálfsímyndar manna og fjölskyldna sé eftirlátinn þeim.

Einnig er lagt til að brott falli greinar úr lögunum sem skilyrða rétt einungis sumra Íslendinga til að bera ættarnöfn. Samkvæmt lögunum er löglegt að bera ættarnafn á Íslandi svo fremi sem það sé ættarnafn sem til er fyrir og sem verið hefur til í ættum viðkomandi barns eftir sérstökum reglum. Upptaka nýrra ættarnafna hefur verið skilgreind ólögleg nema um sé að ræða ættarnöfn sem fólk ber frá öðrum löndum þegar það flytur til landsins. Við teljum að þarna sé í raun verið að mismuna þegnunum um möguleika til að nefna sig og börn sín, þ.e. að sumir Íslendingar hafi rétt til að bera ættarnafn en aðrir ekki. Við teljum að það eigi að vera jafn réttur allra.

Sá sem hér stendur ber óvenjulegt nafn og ættarnafn sem er upprunalega af erlendu bergi brotið en fluttist til Íslands áður en við fórum að setja reglur og lög um mannanöfn og telst því íslenskt í dag. Fyrir gráglettni örlaganna hlaut ég þetta nafn í arf frá langalangafa mínum og hending ein réð því að ég er kominn af honum í karllegg og hef þar af leiðandi haft rétt til að bera þetta nafn.

Í minni fjölskyldu hafa mannanafnalögin verið fyrirferðarmikil, ekki þannig að fjölskyldan hafi staðið í miklu stríði við mannanafnanefnd eða lögin en það að bera erlent ættarnafn hefur verið stór hluti af tilveru okkar. Sumir í ættinni eru mjög stoltir af því en öðrum hefur þótt þetta til trafala og ég er viss um að við könnumst flest við það að hafa fengið af nafninu talsverða stríðni og alls konar kerskni vina okkar og óvina. Það hefur ýmist hert okkur eða verið okkur til ama. Í minni ætt hafa einstaklingar haft þann rétt að taka ákvörðun um hvort við berum þetta ættarnafn eða hvort við trillum okkur niður í Þjóðskrá og látum skrá ættarnafnið af okkur. Þetta er ekki réttur sem aðrir Íslendingar hafa endilega haft. Í minni ætt eru fleiri ættarnöfn sem vill svo til að hafa ekki borist mér í gegnum karllegg og ég hef því ekki rétt til að taka upp eins og lögin eru í dag. Við teljum það óþörf afskipti hins opinbera að veita sumum þennan rétt en ekki öðrum.

Eins er í frumvarpinu lagt til að það verði fellt brott úr lögunum að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi og hugsunin þar er ekki síst að jafna rétt Íslendinga, þ.e. þeirra Íslendinga sem eru fæddir hér á landi og mega samkvæmt núgildandi lögum ekki taka upp ættarnöfn og hinna sem eru fæddir í öðrum löndum þar sem þeir hafa rétt á að taka upp önnur nöfn og mega svo flytja þau með sér þegar þeir flytja hingað.

Í lögunum í dag er gert ráð fyrir því að mannanafnanefnd haldi úti svokallaðri mannanafnaskrá. Nefndin hefur komið sér upp vinnureglum um það hvernig ný mannanöfn eru samþykkt eða þeim synjað og er þá miðað við íslenska málvenju, að nöfnin geti fallbeygst, innihaldi einungis stafi sem viðurkenndir eru í íslensku stafrófi o.s.frv. Þetta hefur orðið til þess að nú eru dæmi um að nöfnum hafi verið hafnað, jafnvel þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og íslenskri tungu og þótt þau hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir. Aftur vísa ég til eigin reynslu, en fyrra nafn mitt er óvenjulegt eða var það að minnsta kosti í minni æsku. Ég er svo heppinn að heita eftir afa mínum sem fæddist áður en reglur voru hertar. Á þeim tíma, á fyrri hluta 20. aldar, var talsverð tíska á Íslandi, ekki síst reyndar meðal Íslendinga sem höfðu nýlega flust til Íslands frá Danmörku og öðrum löndum, að taka upp þjóðleg nöfn og endurlífga nöfn úr íslenskum fornbókmenntum eða sögum. Er Óttarr eitt þeirra, en þessi nöfn höfðu gjarnan legið í láginni og ekki verið notuð jafnvel í fleiri aldir á Íslandi. Þarna var um þjóðlega tísku að ræða, að endurnýta arfinn ef svo má segja, auka fjölbreytni í íslenskum nöfnum og það er vel að þessi tíska komst á áður en reglur voru þrengdar.

Þar sem ég heiti óvenjulegu nafni var eiginnafnið mér oft hugleikið sem barni. Stundum var ég montinn af því en stundum var mér líka á því strítt og veit ég að það sama á við um fleiri börn sem hafa heitið óvenjulegum nöfnum. Þá höfðu foreldrar mínir vissulega það val að breyta nafninu eða ég að kalla mig öðrum nöfnum eða breyta stafsetningu eins og frændi minn einn gerði til að þóknast því sem algengara var. Það var í raun val mitt og foreldra minna að hafa þetta svona og ég kvarta ekki undan því sjálfur.

Það er gjarnan í umræðu vegna þess að nú hafa mannanafnalög og verk mannanafnanefndar verið til umræðu og milli tannanna á fólki í íslenskri umræðu, a.m.k. síðustu áratugina svo ég hafi tekið eftir og eflaust lengur, og oft verið hneykslast á þeim tilfellum þar sem mannanafnanefnd hefur ekki samþykkt ný nöfn. Líka hefur verið hneykslast á því að mannanafnanefnd hafi séð ástæðu til að hafna nöfnum sem sótt hefur verið um sem þykja fjarstæðukennd og óviðurkvæmileg og til þess fallin að auka líkur á að börnum yrði strítt og líf þeirra á einhvern hátt eyðilagt.

Í nafni frjálslyndis og ákveðinna grundvallarmannréttinda Íslendinga til að haga einkahögum sínum teljum við að þetta eigi ekki að vera meira vandamál en ýmislegt annað í einkahögum fólks. Á Íslandi höfum við góða og sterka barnaverndarlöggjöf sem tryggir bæði eftirlit og eftirfylgni með því að börnum sé búið gott líf, þau verði ekki fyrir ofbeldi eða búi við slæmar aðstæður. Ónefni af versta tagi ætti mögulega að geta fallið undir þetta. En samkvæmt tillögunni gerum við ráð fyrir því að í staðinn fyrir sérstaka mannanafnanefnd og mannanafnaskrá sem farið verði eftir verði hægt að skjóta alvarlegum málum til ráðherra ef þörf þykir á og ráðherra hafi þá eitthvert dæmi um.

Hér á Íslandi búum við við nokkuð frjálst og fjölbreytt samfélag og að mörgu leyti eykst fjölbreytni og frelsi í þessu samfélagi með hverjum deginum. Ég finn stóran mun á samfélaginu sem ég lifi í í dag og því samfélagi sem ég ólst upp í sem barn fyrir ekkert svo allt of löngu. Á þessu landi hefur löggjafinn og hið opinbera veitt einstaklingunum margvíslegt vald um eigin hagi. Við treystum fólki til að velja sér klippingar og klæða sig sjálft eftir sínum smekk og höfum ekki af því afskipti nema stórkostleg hætta sé á því að af því hljótist skaði fyrir almenning annan eða að augljóst sé að fólk valdi í einhverri örvinglan eða vanvitaskap sjálfu sér stórkostlegu tjóni. Við teljum að það sama eigi við um það hvað fólk vill láta kalla sig. Við höfum séð það og erum, held ég, öll hér sammála um að það er mikilvægt að einstaklingurinn hafi rétt til að ákvarða um til dæmis klæðnað sinn eða kynvísun. Það er undarleg hyggja að það traust til einstaklingsins eigi ekki við um það hvað hann heitir.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Með frumvarpinu fylgir nokkuð ítarleg greinargerð. Ég vona og treysti að frumvarpið fái góða meðferð í þinginu. Ef á því finnast einhverjir hnökrar eða eitthvað sem geti bætt tillöguna mun ég fagna því sömuleiðis og læt hér við sitja að sinni.