143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[16:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni. Til að bregðast við þeim breytingum sem blasa við í fjölmiðlarekstri þurfum við umræðu hér á þingi. Við þurfum að taka samtal um það í samfélaginu hvert við viljum fara með þessa stofnun, hvernig við viljum bregðast við þeim breytingum sem eru að verða.

Fyrir mér blasir það við að eina leiðin fyrir ríkisrekna fjölmiðla, og ekki bara þá heldur líka einkarekna fjölmiðla, til að bregðast við þeim breytingum sem ólöglegt niðurhal hefur í för með sér — og líka þær netgáttir sem eru löglegar og boðið er upp á, margvíslegt afþreyingarefni og líka heimildarþættir og fréttaefni — er með innlendri framleiðslu, innlendri dagskrárgerð. Ég held að það sé til dæmis það sem er að fleyta Dönum áfram núna, ekki bara þar í landi heldur víða um heim. Þeir hafa tekið um það meðvitaða ákvörðun að fara í metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð. Þetta er umræða sem mér finnst því miður vanta hér.

Við getum endalaust deilt um það hvor ríkisstjórnin hafi verið meiri vinur Ríkisútvarpsins. Meginatriðið er: Við verðum að ákveða hvaða hlutverki það á að gegna. Við þurfum að taka umræðu um það en ekki að skammta því fjármuni og sjá svo hvað kemur út úr því. Það er vond pólitík, það er ekki framtíðarsýn í því. Það er handahófskennd og tilviljunarkennd pólitík og vinnubrögð sem eru ekki til sóma og leiða því miður til stefnulausrar umræðu eins og við verðum vitni að hér.