143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er á öndverðri skoðun við þá sem hér hafa talað um að þessi umræða hafi ekki skilað neinu. Þessi umræða hefur skilað lágtekjufjölskyldum í landinu, barnafólki, 300 milljónum; (Gripið fram í.) bara núna á einum 10 til 15 mínútum. Fyrir það ber að þakka að áform ríkisstjórnarinnar, um 300 millj. kr. niðurskurð í barnabótum, hafa verið slegin út af borðinu hér á tíu mínútum. Ég fagna því.

Ég vona að við höldum umræðunni áfram og spyr hvort einhverjir stjórnarsinnar væru ekki tilbúnir að koma og vitna þá líka með vaxtabæturnar. Ég spyr alveg sérstaklega um fyrirhugaðan og boðaðan niðurskurð á framlagi til Ríkisútvarpsins, upp á 215 millj. kr., til viðbótar við það sem þegar er komið fram, og er vitað mál að þýðir uppsagnir á 20–30 starfsmönnum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Getur ekki einhver stjórnarliði komið fljótlega hér undir liðnum fundarstjórn forseta og lýst því yfir að þetta verði tekið út líka. Þá yrði nú árangurinn orðinn (Forseti hringir.) býsna mikill, um 515 millj. kr. á tíu mínútum eða korteri. Og það er vel af sér vikið. (Gripið fram í: Þetta var vel af sér vikið.)