143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og ágæta ræðu. Hún fór yfir nefndarálitið sem er um margt alveg ágætt. Ég vildi þó til upprifjunar, út af því að hér er verið að ræða stöðuna 2008 varðandi Landspítalann, segja að það er alveg rétt að sérstök vandræði voru út af lyfjakaupum sökum þeirrar stöðu sem kom upp við bankahrunið, vegna kaupa lyfja erlendis frá. Það leystist hins vegar farsællega í samvinnu heilbrigðisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans, enda lögðust allir á eitt við að sjá til þess að ekki yrði neinu öryggi ógnað.

Mér finnst hins vegar ákveðinn ljóður á ráði hv. þingmanns og stjórnarandstöðunni í heild sinni þegar þeir tala um afkomu ársins vegna þess að við vitum að því miður stóðust ekki þær áætlanir sem lagt var upp með. Hér tala menn iðulega um að þetta tengist ákveðinni ríkisstjórn og veiðigjöldum og virðisaukaskatti. Alveg sama hvaða skoðun við höfum á því stenst ekki neina skoðun að það sé meginástæðan. Reyndar er það svo, og við þurfum ekkert annað en lesa fjáraukalögin og sömuleiðis nefndarálitið hér þar sem þessar upphæðir eru tilgreindar, að við erum að tala um að hallinn skýrist hvað varðar veiðigjöldin um 10–13%, eftir því hvaða viðmið við notum. Virðisaukaskatturinn er um 2–2,5%. IPA-aðlögunarstyrkirnir eru svolítið langsóttir vegna þess að eðli málsins samkvæmt komu framlög þar á móti frá íslenskum stjórnvöldum. Jafnvel þótt þetta kæmi inn erum við langt frá því að ná upp 20% af þeim halla sem varð.

Ég spyr þess vegna hv. þingmann: Af hverju er málflutningurinn með þessum hætti?