143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Nú er mikið talað um aga í ríkisfjármálunum og mig langar að spyrja hv. þingmann út í Stjórnarráðið sjálft, hvort það eigi ekki að ganga fram og vera til fyrirmyndar. Nú vitum við að þar hefur fjölgað ansi mikið innan dyra, bæði aðstoðarmönnum ráðherra og ráðherrum, á meðan aðrar vinnumarkaðsaðgerðir eru settar til hliðar eins og fyrir ungt fólk, átakið Nám er vinnandi vegur og aðgerðir eins og þær að veita atvinnulausu fólki desemberuppbót sem var gert á erfiðum tímum á síðasta kjörtímabili, því var haldið inni síðustu tvö ár. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort fólkið sem þarna á í hlut lendi ekki annars staðar á velferðarkerfinu sem gjaldaliður. Þetta fólk hefur auðvitað úr mjög litlu að spila og það kemur kannski annars staðar niður í velferðarkerfinu.