143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal gera mitt besta til að svara öllum þeim spurningum sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson beindi til mín og ég þakka fyrir þær.

Ég man hlutina kannski öðruvísi en hv. þingmaður og hugsanlega man ég þá ekki rétt en ég man ekki til þess að tillögurnar um útgjaldarammann hafi komið fram á árinu 2009. Þó skal ég ekki fullyrða að ég fari rétt með. — 2010? (Gripið fram í.) Nei, það er ágætt að rifja það upp en við erum kannski ekki með þetta allt á hreinu. Hv. fyrrverandi fjármálaráðherra veit það kannski betur. En ég man þó að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, kynnti nýtt frumvarp um fjárreiðulög að mig minnir haustið 2012, ég held að ég fari rétt með hvað það varðar. En við skulum vona að það komi til framkvæmda eins og mér skilst að vonir standi til.

Varðandi það hvort ég sé ánægður og hvort ég telji að núverandi ríkisstjórn sé að vinna eftir þessu, þá skal ég ekki segja til um það. Ég held að við höfum séð upp á síðkastið að þau vinnubrögð að fjárlagafrumvarpið og fjáraukalögin skili sér seint inn sé kannski ekki eitthvað sem menn ættu að taka sér til fyrirmyndar. En held ég þó, ef menn vilja vera sanngjarnir, að það sé eðlilegt í ljósi þess að ný ríkisstjórn er að taka við og menn eru kannski að fóta sig á nýjum vettvangi, en ég veit að það stendur allt til bóta.

Hv. þingmaður spurði — ég sé að tíminn er að renna út, ég kannski svara honum á eftir — um tilfærsluna innan menntamálaráðuneytisins og ég vil taka undir með meiri hluta fjárlaganefndar þegar hann tilgreinir sérstaklega í áliti sínu að þetta séu vinnubrögð sem ekki eigi (Forseti hringir.) að líða. Ég beini því til ráðuneytisins að taka þetta til sérstakrar skoðunar.