143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er um margt að ræða þegar við fjöllum um störf þingsins og við munum ræða ýmislegt hér á næstu dögum. Eðli málsins samkvæmt er verkefnið sem við höfum tekist á við erfitt, en það er ekki bara verkefni hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans, það er auðvitað verkefni okkar allra. Við vitum að halli á fjárlögum þessa árs sem átti ekki að vera til staðar var um 30 milljarðar kr. Það er stórt verkefni. Og við vitum að þær áætlanir sem lagt var upp með gengu ekki eftir.

Virðulegi forseti. Við þekkjum vanda heilbrigðisþjónustunnar og sem betur fer virðumst við vera að ná þeim árangri að geta hagrætt og hreyft þannig til að um 4 milljarðar kr. fari til heilbrigðisþjónustunnar á sama tíma og allt lítur út fyrir að við náum hallalausum fjárlögum. Það er ekki auðvelt. Við munum alltaf geta komið hingað upp eða hvar sem er og sagt að það vanti einhvers staðar meira fjármagn. Þannig mun það alltaf verða. Það er ánægjulegt, og ég held að allir hljóti að vera sammála því, ef við náum því markmiði að halda hallalausum fjárlögum, setja 4 milljarða í heilbrigðisþjónustuna aukalega og 6 milljarða aukalega í bætur til eldri borgara og öryrkja. Það er árangur sem ber að fagna. Ef við náum því og snúum af braut 30 milljarða hallareksturs er það auðvitað árangur sem skiptir máli.

Síðan verður það verkefni okkar allra, virðulegi forseti, að gera enn betur. Við vitum það alveg og jafnvel þeir sem eru í stjórnarandstöðu núna því að það er stutt síðan þeir voru í stjórnarmeirihluta og þeir náðu ekki neinni (Forseti hringir.) fullkomnun með því að láta fjármuni á alla þá staði sem þarf að setja fjármuni í.