143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[16:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef sem ráðherra og nefndarformaður borið ábyrgð á málum og rækt það hlutverk með því að sitja í þingsal og bregðast við í andsvörum við þingmenn ef hægt er að svara á tveimur mínútum og annars flutt lokaræðu í kjölfar umræðunnar og brugðist við athugasemdum. Við áttum þess ekki kost hér í gærkvöldi að eiga samtal við neina á þann veg. Það komu efnislegar spurningar sem hefði verið hægt að svara en þeim var ekki svarað.

Ég verð að segja varðandi athugasemd hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan að hún var vissulega líkamlega viðvarandi hér með hléum í gær (RR: … dónaskap.) og það er auðvitað alveg heillandi fyrir okkur öll að fá að njóta flögrandi nærveru hennar hér um sali (RR: Dóni.) þegar hún kemur inn í salinn af og til og sest hér með tölvuna. Það er allt í lagi. Við fengum samt aldrei efnisleg svör við neinum spurningum sem við beindum til ábyrgðarmanna málsins. (Forseti hringir.) Það er okkar helgi réttur sem þingmanna, það er réttur sem (Forseti hringir.) forseti þingsins varði sérstaklega í setningarræðu sinni í haust og það er réttur (Forseti hringir.) sem ég áskil öllum þingmönnum að fá að njóta.