143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég ætla að halda áfram og spyrja hann af því að hann talaði hér m.a. líka um ófyrirséða hluti og annað sem væri nauðsynlegt og forgangsmál.

Nú veit ég ekki hvort hann hefur skoðað breytingartillöguna sem minni hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram en þar eru nokkur atriði, m.a. 240 milljónir sem við áætlum í desemberuppbót til handa atvinnuleitendum. Ég efast ekki um að hann á stutt svar við því, en mig langar sem sagt að spyrja hann hvort hann hyggist styðja það mál og kannski önnur sem þar koma fram. Eins og ég sagði hér áðan og þingmaðurinn nefndi: Hvernig greinum við vandann? Við í minni hluta fjárlaganefndar greinum vandann með þeim hætti að þetta geti ekki beðið. Við þurfum að leggja þessu til fé sem og Landspítalanum sem varð fyrir óvæntum útgjöldum vegna sýkinga og veikinda sem komu upp í vor.