143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svörin og fagna því að við erum sammála um að stefna að hallalausum fjárlögum. Ég kem aðallega hér upp í seinna andsvar af því að ég var svo óforskömmuð að dengja það mörgum spurningum á hv. þingmann að auðvitað gafst ekki tími til að svara þeim öllum. Það er mínúta eftir til ráðstöfunar og er spurningu minni um þróunaraðstoðina ósvarað. Ég ætla að endurtaka spurningu mína svo hún komi fram. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var dregið úr þróunaraðstoð á árunum 2011 og 2012 og nam hún þá, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, 0,21% af landsframleiðslu en ef fram fer sem horfir verður hún 0,23% af landsframleiðslu. Telur hv. þingmaður að sú gagnrýni sem hann setti fram á þá aðferðafræði okkar hér í þinginu að vera með 0,23% af landsframleiðslunni undir eigi líka við um vinnubrögð síðustu ríkisstjórnar?