143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[00:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Róberti Marshall, sérstaklega fyrir ræðu hans og tek undir allt sem kom fram í henni, hún er sem töluð út úr mínu hjarta. Ég vil líka segja að þær ræður sem ég hef heyrt í þessum umræðum hafa verið mjög upplýsandi. Mér finnst einmitt það jákvæða við umræður um svona flókin málefni eins og fjáraukalagafrumvarpið, sem eru ekkert sérstaklega spennandi heiti yfir jafn mikilvægan þátt og hann er til að fá fólk til að fylgjast með, að umræðurnar sem skapast oft um þetta gefa manni mjög skýra mynd. Ég vil hvetja fólk til þess að fylgjast með umræðunum þó svo að það vanti kannski mótvægið og samræðuna. Það er ekkert nýtt en er eitthvað sem við ætluðum og höfum alltaf talað um að breyta, að minnsta kosti síðan ég kom inn á þing. Það stendur upp á okkur öll og sérstaklega þá þingmenn sem eru ekki orðnir forhertir af langri viðveru og miklum hefðbundnum átökum.

Ég vil taka undir það sem sagt hefur verið um græna hagkerfið, eins og við samþykktum það öll á Alþingi, og það græna hagkerfi sem er í skúffu forsætisráðherra — ég er ekki alveg að skilja það. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. forsætisráðherra aðeins betur út í það hvað hann er að hugsa með því. Græna hagkerfið sem við samþykktum var svo sannarlega ekki eins róttækt og ég hefði viljað hafa það, en það var vel unnið mál og var í raun og veru vegvísir að framtíð landsins, undirstaða fyrir samfélag sem mér hefði hugnast mjög vel. Innan þess rúmaðist eitthvað sem pírötum finnst vera þess virði að vinna að og það er hugtakið netvæna Ísland.

Það eru margir sem bíða eftir því að geta borgað góðar fjárhæðir fyrir okkar grænu orku, en því miður hefur gengið hægt að skapa það lagalega og viðskiptalega umhverfi sem það krefst. Mér finnst miður að við skulum ekki leyfa okkur að halda áfram með þá framtíðarsýn og þá framtíðarstefnu sem fólst í græna hagkerfinu. Ég veit að það var komið mjög til móts við minni hlutann síðast og þetta var ekki einvörðungu meirihlutahugmynd undir lokin heldur algjörlega þverpólitísk sýn og stefna. Þetta er það sem við hér á þingi vildum gera. Við vildum, hélt ég, búa til öðruvísi Ísland, við vildum búa til nýja Ísland. Og nýja Ísland er ekki það sem birtist fólki í þessum sal og í fjölmiðlum undanfarna daga. Ég hef það á tilfinningunni, svo ég sé frekar pragmatísk, að þetta geti bara orðið verra ef við tökum ekki ákvörðun um að höggva á þennan leiðinlega hnút vondra hefða. Við getum það, það þarf bara að taka ákvörðun og það þarf bara að hafa vegvísi. Sá vegvísir hlýtur að vera eitthvað annað en innantómt orðagjálfur fyrir kosningar. Þessi vegvísir hlýtur að vera eitthvað sem við getum sýnt í verki.

Ég vil hvetja nýja þingmenn og þá þingmenn sem eru ekki orðnir forhertir af hefðum að gera allt sem þeir geta til að breyta þessu. Því miður hélt ég nákvæmlega sömu ræðu á síðasta þingi, aftur og aftur. Alltaf þegar voru átök í þinginu hélt ég þessa ræðu, alltaf þegar ég sá fram á að ég nennti ekki að taka þátt í þessu, að taka þátt í einhverjum skærum sem oft urðu hatrammar en voru samt einhvern veginn bara á yfirborðinu. Þær rista ekki það djúpt að maður geti ekki talað saman inni í matsal eða tekið í höndina á þeim sem maður er að munnhöggvast við, þær rista ekki dýpra en það. Ég ætla því að vona, og segja í tíunda skipti, að þessi einlæga ósk um breytt vinnubrögð fari að hrífa á einhverja, því að við þurfum að vera góð fyrirmynd. Við getum ekki ætlast til þess að samfélagið verði eitthvað öðruvísi ef við erum ekki góð fyrirmynd.

Ég deili sambærilegri framtíðarsýn og kom fram í ræðu hv. þm. Róberts Marshalls og einlægri ósk um að almenningur, og þá sérstaklega yngri kynslóðin, verði meiri þátttakendur í samfélagi okkar. Mig langar að segja, og það er svo mikilvægt þannig að maður fari ekki héðan út í einhverju volæði, að þær breytingar sem þó hafa orðið á þessum fjáraukalögum, sem eru kannski um viðkvæmustu þættina, hafa einmitt komið til vegna þess fólk úti í samfélaginu hefur mótmælt niðurskurði.

Það er einn hlutur eftir sem ég skora á ríkisstjórnina að laga og það er jólauppbótin fyrir atvinnulausa. Ég hef verið atvinnulaus og ég veit hvað það er erfitt að þurfa að fara og standa í röð hjá Mæðrastyrksnefnd. Ég veit hvað það er erfitt að fara með miðann út í Bónus til þess að eiga fyrir jólamat. Mig langar að þingmenn finni það í hjarta sínu að láta það ekki yfir fólk ganga, kannski enn ein jólin í röð, að eiga ekki fyrir mat, að eiga ekki fyrir gjöfum handa börnunum sínum. Við hljótum að geta sýnt jólaandann í verki og ekki látið fólk þurfa að fara í gegnum það sem ég veit að er erfitt. Það gerir það enginn af léttum hug. Þessi skref eru mjög þung, það veit ég.

Alltaf þegar um er að ræða stórpólitískar tillögur og breytingar — og það eru alltaf stærstu pólitísku tíðindin sem eiga sér stað í fjárlögum og fjáraukalögum — eru þar góðir hlutir og hlutir sem maður er kannski ekkert endilega sammála. Umræðan í dag hefur verið athyglisverð um hve mikla þróunaaraðstoð Íslendingar fengu til þess að byggja hér upp samfélag þegar við vorum nýstofnað lýðræðisríki. Við höfum ekki enn þá náð upp í þá tölu, þá fjárhæð, á þeim árum sem liðin eru síðan við urðum lýðræðisþjóð. Við erum ekki fátæk þjóð, við erum svo langt í frá að vera fátæk þjóð.

Ég veit það bara af samræðum við ungt fólk, eins og t.d. krakkana mína, að þeim þætti ekkert verra að fá aðeins minna vitandi að það mundi kannski bjarga mannslífi. Og ég er svo sammála því. Mér finnst það svo óþægilegt og eiginlega bara ógeðfellt þegar fólk ber saman barn sem er að deyja úr hungri og barn sem á kannski ekki fyrir nýjum skóm. Það er ekki það sama.

Ég veit líka að það er mjög margt í samfélaginu sem hefur einhvern veginn molnað hægt og bítandi í sundur. Ég er mjög ánægð með að það eigi að reyna að setja pínulitla bremsu á það algjöra hrun sem er að eiga sér stað innan heilbrigðiskerfisins. En samfélag okkar er ekki bara byggt á heilbrigðiskerfi og við verðum að huga að framtíðinni. Þess vegna, svona að lokum, langar mig að við endurskoðum og fáum skýringu á liðnum um græna hagkerfið sem þingið samþykkti. Ég er eiginlega alveg sannfærð um að niðurstaðan yrði nákvæmlega sú sama nú ef við mundum greiða atkvæði um græna hagkerfið sem hér var samþykkt á síðasta kjörtímabili með atkvæðum allra þingmanna á græna takkanum. Því væri gríðarlega gagnlegt að fá einhverjar upplýsingar um viðsnúninginn og af hverju þetta er núna skilgreint eins og eitthvað allt annað. Ég sakna þess t.d. að hafa ekki getað rætt við hæstv. forsætisráðherra um þetta.

Annars vona ég að í næstu umræðum um þessa stóru og miklu liði, t.d. um fjárlögin, verði betra jafnvægi í samræðunum. Þó svo að ég sé hér að tala og komið sé fram yfir miðnætti þá er ég að tala við ykkur, við erum að tala saman. Ég hélt að til þess væri ég í þessari vinnu, að þessi hluti vinnunnar gengi út á samtal. Ég hef oft orðið fyrir áhrifum af því að hlusta á aðra þingmenn, alveg sama úr hvaða flokki þeir eru, og ég hef jafnvel skipt um skoðun. Það er ekkert rangt við það að skipta um skoðun ef maður fær upplýsingar sem verða til þess að maður sér að ef til vill var sú skoðun ekki byggð á réttum upplýsingum eða réttum forsendum. Það er ekki neitt rangt við það að skipta um skoðun.

Það sem hefur verið aðallega gagnrýnt í þessum umræðum, eða samræðum minni hlutans við sjálfan sig, eru mál sem ég held að stjórnarliðar séu ekkert endilega rosalega mikið á móti. Reynt hefur verið að koma með tillögur að úrbótum og ég vonast til þess að almenningur gefist ekki upp á okkur. Ég vonast til þess að næstu kynslóðir, fólk sem vill beita sér í samfélaginu, nýti sér þá möguleika sem við höfum. Það er til eitthvað sem heitir Betri Reykjavík sem er mjög vel heppnuð samfélagstilraun og hefur virkjað marga til þess að taka þátt í að móta og þróa nærsamfélag sitt. Við eigum líka annan grunn sem heitir Betra Ísland þar sem boðið er upp á samræður almennings þar sem hann getur átt í raunverulegum rökræðum og þarf að þjálfa sig í að gera eitthvað sem við kannski erum ekki nógu dugleg að gera hér og gefum ekki nægilega góða fyrirmynd í, og það er að færa góð rök fyrir máli sínu, með eða á móti.

Ég vil þakka öllum sem hafa haldið hér ræður, efnislegar ræður, því að ég er öllu upplýstari og ég vonast til þess að næstu dagar verði ekki eins og síðustu tveir dagar. Það vona ég svo sannarlega.