143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að taka undir með hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, að vísu ekki skammarræðuna sem hún flutti hér yfir félögum sínum í þingflokki Framsóknarflokksins fyrr á fundinum heldur fyrir að vekja athygli á því að skuldaleiðréttingar, jafn ágætar og þær geta verið fyrir sum heimili í landinu, eru ákveðnum takmörkunum háðar. Það er því miður ekki rétt að þær nái til 80% heimila í landinu, því fer fjarri. Niðurfærslan nær til verulega minni hóps, m.a. vegna þess að fjöldi fólks fær enga aðstoð ef það hefur áður fengið aðstoð, því að á henni eru takmörk, þak og annað slíkt. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að vinnunni í skuldamálum heimilanna er hvergi nærri lokið.

Það olli mér nokkrum áhyggjum þegar við í þingflokki Samfylkingarinnar fengum fulltrúa úr sérfræðingahópnum á okkar fund til að fara í gegnum vinnu hópsins. Við spurðum sérfræðingana hvaða greining hefði farið fram á því hverjir fengju þessa 72 milljarða úr ríkissjóði. Fram kom hjá sérfræðingunum að engin greining hefði farið fram á því, engar upplýsingar lægju fyrir um það hvaða hópar í samfélaginu fengju þessa fjármuni úr ríkissjóði. Þar af leiðandi er væntanlega engin greining á því hvaða hópar í samfélaginu fá ekki stuðning og þar af leiðandi er engin greining á því hvaða vandi er enn þá eftir þegar þessi almenna leiðrétting upp á 11% hefur náð fram að ganga.

Ég held að það kalli á að við fáum skuldamálin inn í þingið til að fara í þessa nauðsynlegu greiningarvinnu og átta okkur á því hvaða hópar það eru í samfélaginu sem enn liggja óbættir hjá garði, sem enn ráða ekki við sín mál og með hvaða hætti megi hugsanlega koma til móts við þá. Við vitum að vandi allra verður ekki leystur en það er mikilvægt að sofna ekki á verðinum (Forseti hringir.) og telja sér ekki trú um að maður hafi leyst vanda 80% heimila í landinu á einum laugardegi.