143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að lögbundnar markaðar tekjur sem renna eiga í fjarskiptasjóð renni ekki þangað. Mörg sveitarfélög hafa komið fyrir hv. fjárlaganefnd og lýst áhyggjum sínum á skorti á netsambandi og slæmum áhrifum þess á búsetuskilyrði. Margir alþingismenn hafa talað um að lagfæring á þessu sé eitt mikilvægasta byggðamálið og tveir hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins hafa skrifað um þetta langar greinar. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að sjóðurinn fái þessar mörkuðu tekjur og geti sinnt þeim verkefnum sem sjóðurinn og stjórn hans er búin að leggja upp með í samvinnu við hæstv. innanríkisráðherra.