143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:07]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir með nöfnu minni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, það er hálfhjákátlegt að sjá hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra koma hingað og tala um að hæstv. ríkisstjórn sé á kolrangri braut þegar verið er að tryggja að þeir fjármunir sem gert hafði verið ráð fyrir í Tækniþróunarsjóði fyrir árið í ár verði þar. (Gripið fram í: Hvað ætlið …?) Svo vogar hv. þingmaður sér að bæta um betur með því að sitja hjá. Hún getur ekki einu sinni stutt þessa tillögu. Þetta finnst mér hræsni, virðulegur forseti. (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að gera …?)

Eins og margoft hefur komið fram í mínu máli og fleiri ráðherra ríkisstjórnarinnar er Tækniþróunarsjóður afskaplega mikilvægur. Það er mikilvægt að við stöndum vel að baki honum. Við viljum gera það með fjármunum sem við eigum til. Það er ekkert fengið með því að taka fjármuni að láni til að styðja við fjárfestingu, sama hversu góð sem hún er. Ég get þó fullvissað hv. þingmann og þingheim um (Forseti hringir.) að það stendur ekki til að falla frá stuðningi við Tækniþróunarsjóð. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því að ef menn víkja frá útbólgnu árinu 2013 er verið að auka (Forseti hringir.) framlög til þessa mikilvæga málaflokks og það verður gert þegar við erum búin að koma rekstri ríkissjóðs fyrir vind.

(Forseti (EKG): Forseti vill árétta og biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða tímamörk í umræðunni.)