143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni leiðréttinguna á orðalaginu í áliti meiri hlutans varðandi fæðingarorlofið. Ég var með í huga fyrri útgáfu nefndarálitsins en ég virði það við nefndina að hafa gert þessa breytingu. Varðandi hin atriðin sem hann rekur þá ganga þau ekki upp. Það er verið að leggja á gjald upp á 213 milljónir kr. en það eiga bara að skila sér til háskólanna 39,2 milljónir kr. Mismunurinn rennur í ríkissjóð. Þetta er sértæk skattlagning á námsmenn. Þetta er ekki skráningargjald til að standa undir kostnaði við skráningu í háskólana.

Varðandi verðlagsuppfærsluna get ég almennt séð tekið undir með hv. þingmanni að ekki er gott að þetta gerist í of miklum stökkum. Þegar við tókum við hér eftir hrun hafði ekki verið verðlagsuppfærsla á flestum þáttum frá árinu 2000. Það hafði verið uppgangur í efnahagslífinu og ríkið ekki verið að beygja sig sérstaklega eftir litlum tekjum. Það var auðvitað vont að þurfa til dæmis að hækka áfengisgjöld mikið á skömmum tíma og ýmis önnur slík gjöld. Á móti kemur að verðlagsforsendur næsta árs eða verðbólguspá næsta árs byggir á meðaltali á væntingum sem byggir á því að einhverjir hækki um eitthvað, mismunandi mikið.

Ef ríkið síðan horfir á þá spá og segir: Allt í lagi, fullt af aðilum í samfélaginu, þar á meðal ríkið, mun hækka samanlagt um 3,8% og þá ætlum við að hækka sjálfir, bara við, um 3,8%. Það þýðir óhjákvæmilega vegna vægis ríkisins í efnahagslífinu og vægis sveitarfélaga í efnahagslífinu ef bæði ríki og sveitarfélög hækka um 3,8% að forsendan fyrir 3,8% er þegar horfin því að það eru of margir búnir að hækka um 3,8% til þess að meðaltalið (Forseti hringir.) upp á 3,8% geti staðist.