143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í þessari umræðu fyrst og fremst þar sem eftir því hefur verið kallað að ég lýsi sjónarmiðum mínum varðandi áhrifin af nýlegum fréttum af hægagangi í uppbyggingu stóriðju á forsendum fjárlagafrumvarpsins. Ég lít að sjálfsögðu á að málið sé nú á forræði þingsins og treysti nefndinni vel til að leiða umræðuna á grundvelli nefndarálits og fylgja því úr hlaði.

En það er sjálfsagt að bregðast við þegar kallað er eftir svörum varðandi þjóðhagsspána sem frumvarpið byggir á, sem er sú sem kom fram í sumar og svo kom önnur frá Hagstofunni núna í nóvember sem var örlítið lakari. Ég geri ráð fyrir að nefndin hafi horft nokkuð til hennar, en í þeirri sem kom fram í nóvember var gert ráð fyrir að landsframleiðslan mundi aukast um 2% árið 2013 og 2,5% árið 2014.

Í millitíðinni hafa síðan komið fram þær upplýsingar frá Hagstofunni að á árinu 2013, á líðandi ári hafi landsframleiðslan á fyrstu níu mánuðum ársins aukist um 3,1%, en það er stutt síðan Hagstofan spáði því að landsframleiðslan mundi aukast um 2%. Innan við þremur vikum síðar var sú tala komin í 3,1%. Þá hefur væntanlega verið búið að renna tölum í gegnum reikniverkið. Þegar við berum þessar tölur saman við forsendur fjárlagafrumvarpsins, nýjar tölur eftir níu mánuði á árinu 2013, kemur fram að landsframleiðslan hefur aukist um 3,1%. Þá getum við verið þokkalega bjartsýn varðandi forsendurnar inn á árið 2014. Við getum verið nokkuð bjartsýn á að ástandið í hagkerfinu verði, þegar nýtt ár gengur í garð, a.m.k. í samræmi við þær væntingar sem við höfðum. Það sem er sérstaklega ánægjulegt varðandi nýjustu tölurnar er að útflutningurinn fer mjög vaxandi og ef viðskiptakjör mundu fara batnandi eins og nokkur merki eru um, Evrópa virðist vera í hægum bata og jafnvel hagkerfi Bandaríkjanna líka, þá gætum við kannski gert okkur vonir um að viðskiptakjörin, sem hafa verið býsna slöpp, muni smám saman fara batnandi. Þá mun þessi mikli útflutningur fara að skipta enn meira máli.

Því til viðbótar er rétt að hafa í huga að Hagstofan hefur í nýlegum spám sínum ekki gert ráð fyrir því að álverið í Helguvík muni vega þungt á árinu 2014. Það væri þá frekar á árunum 2015 og 2016, eins og lesa má um í þjóðhagsspánni sem kom út 15. nóvember. Þá var frekar verið að horfa til þess að uppbygging stóriðju á Suðurnesjum gæti vegið þungt 2015 og 2016 en mundi vega minna á næsta ári.

Svo má bæta því við umræðuna að í sjálfu sér hefur álverið ekki verið endanlega slegið af sem verkefni en ekki er hægt að horfa fram hjá því að forsvarsmenn fyrirtækisins sem stendur að baki hugmyndum um uppbyggingu álversins í Helguvík eru greinilega ekki mjög bjartsýnir á að mikil hreyfing verði á málinu á næstunni og kalla eftir aðkomu nýrra aðila til að sækja orku. Það vildi ég sagt hafa í tilefni af því að hér er því að velt upp hvort forsendur frumvarpsins hafi brostið með nýlegum fréttum. Ég tel að þegar við horfum á hagvöxtinn á þessu ári þá komum við inn í nýtt ár með nokkuð gott ástand hér, þokkalega mikinn kraft í hagkerfinu, og er ekki ástæða til að meta forsendurnar mikið niður á við. En það er sjálfsagt að nefndin taki það til sérstakrar skoðunar milli umræðna.

Að öðru leyti vildi ég koma aðeins inn á umræðuna um framlög til þróunarstarfs og rannsókna á Íslandi. Í dag hefur það verið nokkuð fyrirferðarmikið í umræðunni að ný ríkisstjórn hyggist draga nokkuð úr framlögum til rannsóknar- og þróunarstarfs og eru þá einkum nefndir til sögunnar Tækniþróunarsjóður og Rannsóknasjóður. Svo er þess jafnframt getið að ekki sé sami skattafsláttur vegna þróunarstarfs hjá fyrirtækjum. Það er ástæða til að koma aðeins inn í þá umræðu hér og gera grein fyrir því hvernig málið blasir við fjármálaráðuneytinu og þeim sem hér stendur.

Í fyrsta lagi eru það einkenni á þeim breytingum sem lagðar eru til á næsta ári að verið er að færa áformin nær efnahagslegum raunveruleika. Stóraukin framlög á árinu 2013 voru, þegar upp var staðið, á kostnað nýrrar lántöku. Það reyndist ekki vera sú innstæða fyrir þeim auknu útgjöldum sem ákveðin voru hér fyrir ári síðan sem menn vonuðu þá. Við því var talið nauðsynlegt að bregðast með því að draga víða úr útgjaldavexti.

Á móti birtist síðan ný forgangsröðun hjá nýrri ríkisstjórn. Þannig er á sama tíma dregið úr skerðingu bóta til öryrkja og aldraðra þannig að hrein aukning í þann bótaflokk losar 5 milljarða í fjárlagafrumvarpinu 2014. Og þegar við tökum með í reikninginn verðlagsuppfærslu og fjölgun bótaþega þá mun ný ríkisstjórn hafa aukið framlög í bætur almannatrygginga um rúma 8 milljarða, borið saman við fjárheimildir ársins 2013. Með því er verið að lýsa breyttri forgangsröðun. Þetta kemur til viðbótar við það sem nefnt hefur verið í umræðunni sem er 5 milljarða lækkun á tekjuskatti einstaklinga. Ég tek eftir því að það er mjög algengt að sú lækkun tekjuskattsins sé töluð niður á þeirri forsendu að hún skili of litlu til hvers og eins. En margt smátt gerir eitt stórt. Heildaráhrifin eru þau að það verða 5 milljarðar eftir hjá heimilunum. Jafnvel þótt það dreifist í mörgum litlum upphæðum mjög víða þá skiptir það verulega miklu máli til þess að auka kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna í landinu. Það er niðurstaðan og það sýna útreikningarnir sem lagðir voru fram með frumvarpinu. Þetta er líka breytt forgangsröðun. Við trúum því að þetta sé aðgerð sem léttir undir með heimilunum og við gefum ekki eftir markmiðið um hallalaus fjárlög.

En aftur að rannsóknar- og þróunarstarfinu. Því er haldið fram að hér sé að verða einhver mikil kúvending með nýrri ríkisstjórn, að með því að draga úr þeirri öru hækkun á þeim framlögum sem birtist í fjárlögum 2013 sé komin einhver alveg ný stefna. Því hlýt ég að mótmæla. Ég hvet menn til að skoða gaumgæfilega kaflann um rannsóknir og þróunarstarf sem byrjar á bls. 243 í fjárlagafrumvarpinu. Þar er m.a. fjallað um niðurstöðu Rannís í þessum efnum. Rannís hefur gert sérstaka könnun á þessum málaflokki. Könnunin leiddi í ljós, eins og lesa má á miðri bls. 244, að árið 2011 vörðu Íslendingar 42,4 milljörðum kr. til rannsókna og þróunarstarfa. Það samsvarar 2,6% af vergri landsframleiðslu. Svo ég leyfi mér að lesa upp úr fjárlagafrumvarpinu, virðulegi forseti:

„Rannís hefur einnig endurmetið umfang rannsókna og þróunarstarfa á árinu 2009 og hefur í kjölfarið lækkað áður útgefna tölu úr 3,1% af VLF niður í 2,82% af VLF. Rannís hefur ekki endurmetið mælingar lengra aftur en til ársins 2009. Sé miðað við þennan mælikvarða, þ.e. hlutfall rannsóknar- og þróunarútgjalda miðað við VLF, benda niðurstöður kannana Rannís til þess að rannsóknastarfsemi hafi dregist saman um 8% á milli áranna 2009 og 2011.“

Á síðasta kjörtímabili var verulega dregið úr framlögum til rannsóknarstarfsemi samkvæmt niðurstöðum Rannís.

Síðan segir í framhaldinu í textanum sem fylgir á bls. 244, með leyfi forseta:

„Ætla má að Ísland sitji nú í 10. sæti meðal þrjátíu OECD-þjóða þegar útgjöld til rannsókna og þróunarstarfa eru sett í samhengi við VLF.“

Svo er farið yfir það hvernig þetta hefur verið fjármagnað og hvernig það skiptist á milli fyrirtækja sem fjármögnuðu 48% útgjaldanna, ríkissjóðs sem fjármagnaði 42% útgjaldanna og erlendra aðila sem fjármagna 8% útgjaldanna.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Opinber framlög til þessara málefna eru nokkuð há á Íslandi í samanburði við önnur lönd, en meðaltal OECD ríkja hefur verið í kringum 30%“ — ég endurtek: 42% á Íslandi. En 30%, meðaltalið, er ívið hærra en hjá hinum Norðurlöndunum að Noregi undanskildum.

Þegar við skoðum þetta í því ljósi að við Íslendingar erum há á mælikvarða OECD-ríkja, við erum há á mælikvarða Norðurlandanna hvað varðar opinberu framlögin í rannsóknir og þróunarstarf kemur í ljós að það er enginn fótur fyrir umræðunni um að hér séum við að dragast aftur úr í samanburði við önnur lönd eða að hér hafi verið tekin einhver ný stefna. Horfum aðeins á samantektina á bls. 245 þegar við skoðum hversu miklu varið er í málaflokkinn samtals. Þar er birt tafla sem sýnir mat Rannís á því hvernig fjárveitingar ríkisins til rannsókna og þróunar skiptast á viðtakendur. Það er fróðlegt að skoða þessa töflu. Hún sýnir hvernig framlögin skiptast á menntastofnanir, opinberar rannsóknarstofnanir, Rannís og sjóði vistaða þar, alþjóðlegar stofnanir, sjóði aðra en í vörslu Rannís og svo áætlanir og önnur verkefni.

Öll umræðan í þinginu hefur snúist um Rannís og sjóði vistaða þar. Það má til sanns vegar færa að í þessu fjárlagafrumvarpi er talan þó nokkuð mikið lægri en á árinu 2013. Árið 2013 var talan rúmir 3,4 milljarðar, á næsta ári verður hún tæpir 2,7 milljarðar. Þarna er samdráttur. En þegar við skoðum samtalstölurnar þá eru framlögin á næsta ári yfir 18 milljörðum. Hvernig hafa þau verið undanfarin ár? Þau eru sem sagt 18,1 milljarður, tæpir 18,2 milljarðar árið 2014 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, 2006 voru þetta 10 milljarðar, 2007 12, 2007 16,7, 2011 15,8, 2012 17, 2013 18,9, 2014 18,2 milljarðar. Allt eru þetta tölur á verðlagi hvers árs og ber að hafa í huga að hér hefur orðið verðbólga í millitíðinni en það er með engu móti hægt að segja að hér hafi orðið einhver mikill viðsnúningur með nýrri ríkisstjórn. Þvert á móti er eiginlega verið að halda uppteknum hætti með að auka framlögin í þennan málaflokk eins og ástandið í ríkisfjármálunum býður upp á. Ef við berum okkur saman við hvort sem er 2009, 2010, 2011 — reyndar er ekki sérstök samantekt hér fyrir árið 2010 á miðri blaðsíðunni en við vitum að dregið var mjög úr framlögunum samkvæmt niðurstöðu Rannís á milli 2009 og 2011 þegar síðasta ríkisstjórn var við völd. En þegar við skoðun bara stöðuna frá 2011 þá erum við komin yfir 18 milljarða en vorum í 15,8. Taflan sýnir hvernig fjárveitingar ríkisins til rannsókna og þróunar skiptast á viðtakendur. Mér finnst tölurnar tala sínu máli og eyða öllum vafa um að áfram er verið að styðja myndarlega, og betur en velflestar OECD-þjóðir, við rannsóknastarf. Hér er varið miklu í rannsóknastarf í samanburði við önnur Norðurlönd og í sögulegu samhengi er með engu móti hægt að halda því fram að verið sé að draga lappirnar eða að draga mjög úr þessum framlögum.

Ég vil hins vegar taka það fram í þessari umræðu að ég styð þá stefnumótun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og byggir á því að við aukum framlög til samkeppnissjóða til að tryggja að raunveruleg samkeppni fari fram um framlögin. Þess vegna er skiljanlegt að menn geri athugasemdir við að Tækniþróunarsjóður og Rannsóknasjóður skuli þurfa að þola nokkra skerðingu núna, en heildarframlögin dragast hins vegar ekki mikið saman. Og þótt gert sé ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að undið verði ofan af fjárfestingaráætluninni í skrefum þá bíður það sérstakrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar hvernig tekið verður á framlögum til þessara sjóða á næstu missirum og árum. Það verður gert í réttu hlutfalli við bættan hag ríkissjóðs. Eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg þá munum við vera í betri færum til að halda áfram uppbyggingu á þessu sviði. Ég tel að það sé í sjálfu sér enginn ágreiningur um það milli flokka að mikilvægt er að halda áfram myndarlegum stuðningi við þennan málaflokk.