143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu þá sýna þær tölulegu upplýsingar sem um er beðið bara fram á það. Hagstofan getur auðveldlega gert grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á hagvöxtinn og þegar menn hafa þær tölur á fjármálaráðuneytið nokkuð auðveldlega að geta áttað sig á því hvaða áhrif það hefur í aðalatriðum, gróflega, á tekjurnar.

En ég vildi aðeins nota tækifærið í síðara andsvari og nefna tekjuskattinn af því að hæstv. ráðherra ræddi líka um hann. Ég vil segja að okkur greinir út af fyrir sig ekki á um það að auðvitað á að reyna að létta byrði heimilanna í landinu af tekjusköttum ef færi eru til þess. Það sem við höfum hins vegar gagnrýnt, og í því hefur ríkisstjórnin auðvitað sínar pólitísku áherslur, er að tiltölulega lítill hópur þeirra sem hæstar hafa tekjurnar munu fyrst og fremst njóta þess. Þeir sem lægstar hafa tekjurnar njóta þess í engu og þeir sem meðaltekjur hafa njóta þess miklum mun minna (Forseti hringir.) heldur en þeir sem hæstar tekjur hafa. (Forseti hringir.) Það afhjúpar auðvitað forgangsröðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.