143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að víxlverkun launa og verðlags hafi aðallega verið notuð þegar launin voru líka vísitölutryggð en svo voru launin tekin úr sambandi, en eiginlega, þegar til lengdar lét, ekkert annað. Þegar til lengdar lét var ekkert annað tekið úr sambandi en launin og það er náttúrlega ekki gott. Þá er ég ekki að mæla fyrir því að við vísitölutryggjum laun. Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Það væri náttúrlega best fyrir okkur ef við gætum losnað sem mest við vísitölutryggingar. En við megum heldur ekki gleyma því af hverju vísitölutrygging var sett á. Það var út af því að alveg ógerlegt var að ráða við þetta öðruvísi.

Ég hef hins vegar aldrei skilið af hverju til dæmis vísitölutryggingin á lánum var ekki tekin af á bilinu 1999–2001. Ég bjó þá í útlöndum og skammaðist þar við vini mína og félaga út af því. Það hafði nú ekki mikið að segja að tala um það í kaffiboðum í Belgíu. Ég skildi það aldrei þá og skil það ekki enn, þá var tækifærið, það þarf að bíða eftir því tækifæri.

Ef við tökum Seðlabankann er það náttúrlega þannig að Seðlabankinn rúllar upp hagfræðimódelum. Það er alveg rétt að ef laun hækka í landinu og ekkert annað gerist og enginn annar heldur að sér höndum og gjaldskrárhækkanir eru hjá ríkinu og gjaldskrárhækkanir þarna og launin hækka og vörugjaldið hækkar og gengið lækkar, þá heldur þetta endalaust áfram. Einhver verður (Forseti hringir.) því að reyna að halda í við sig. Mér finnst tækifæri núna fyrir ríkið að gera það.