143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi orðanotkunina „skólagjöld“, skólagjöld er yfirhugtak yfir skráningargjöld og skólagjöld og annan kostnað við að skrá sig í skóla eða stunda nám. Menn geta t.d. borgað allan kostnaðinn, eins og í Bandaríkjunum, þá heitir það skólagjöld. Þar inni í eru skrásetningargjöld líka, þannig að skrásetningargjöld er einn hluti af skólagjöldum. Svona hártoganir duga því náttúrlega skammt.

Hverjir mundu ekki skrá sig? Það eru þeir sem ætla ekkert að stunda nám. Það eru þeir sem ætla ekki að stunda nám af neinni alvöru. Þetta hefur verið rætt á háskólaþingum nokkrum sinnum. Nokkrum sinnum hefur verið rætt um brottfallið, sem er skelfilega hátt, það er skelfilega hátt þegar 38% fyrsta árs nema klára ekki námið, fyrsta árið. (Gripið fram í: Það er numerus clausus í mörgum greinum.) Þrátt fyrir numerus clausus. Þetta er vandamál sem háskólinn vill taka á líka.