143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

viðbrögð AGS við skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar.

[10:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Nú eru að tínast inn hvaða viðbrögð mikilvægir aðilar, innlendir og erlendir, hafa við skuldaleiðréttingartillögum ríkisstjórnarinnar. Það er mikilvægt að heyra hvað hæstv. forsætisráðherra finnst um ýmsa gagnrýni sem heyrist núna.

Seðlabankinn telur að aðgerðirnar geti verið verðbólguhvetjandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur í sama streng og hefur í rauninni aðra gagnrýnispunkta líka. Greiningardeildir banka benda líka á að niðurstaðan gæti orðið meiri verðbólga. Það er auðvitað alvarlegt mál vegna þess að hér á að lækka höfuðstól verðtryggðra skulda og eins og hæstv. forsætisráðherra veit hækkar höfuðstóll verðtryggðra lána við aukna verðbólgu þannig að hættan er sú að boðaðar aðgerðir verði einfaldlega étnar upp af verðbólgu á skömmum tíma.

Mér finnst þessir aðilar ansi mikilvægir. Seðlabankinn hefur til dæmis það hlutverk að reyna að vinna gegn verðbólgu í þjóðfélaginu. Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hver viðbrögð hans séu við viðbrögðum þessara stofnana og einnig hvaða áætlanir ríkisstjórnin hafi í því viðfangsefni að reyna að sporna við verðbólgu á sama tíma og lækka á höfuðstól verðtryggðra lána.