143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[11:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málefni landbúnaðarháskólans eru rædd í þessum sal. Í flest skipti sem málefni þess góða skóla hefur borið á góma hefur það reyndar verið í umræðu um fjárlög. Það er vegna þess að því miður hefur verið langvarandi rekstrarvandi við þá stofnun sem endurspeglast í því að árum saman hefur skólinn ekki náð að reka sig innan fjárheimilda. Safnast hefur upp gríðarlegur halli og ef horft er bara til skuldarinnar við ríkissjóð nemur hún nú rúmlega 700 millj. kr.

Augljóst er að landbúnaðarháskólinn verður, eins og aðrar stofnanir, að vera innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi markar skólanum. Á undanförnum fimm árum hefur starfsemi skólans dregist saman um 30%. Vísindastörfunum hefur fækkað umtalsvert og skólinn hefur því veikst mjög. Ég tel að það séu gríðarleg sóknarfæri möguleg í því fyrir skólann og reyndar líka fyrir byggðirnar í Borgarfirði að skoða þann möguleika mjög ítarlega að sameina Háskóla Íslands og landbúnaðarháskólann og skjóta þar með styrkari stoðum undir starfsemina heima í héraði. En það er rétt að hafa í huga að þetta mál snýr ekki bara að Borgarfirði einum. Um er að ræða grundvallarskóla í landbúnaðarvísindum þjóðarinnar allrar. Það er mín skylda sem menntamálaráðherra, ráðherra vísindamála, að gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að háskólastarfsemi og vísindarannsóknir á þessu sviði séu sem öflugastar.

Málið er tvíþætt, annars vegar það umhverfi sem skólinn er í og hins vegar staða rannsókna og skólastarfs í landbúnaði. Þetta er meginmálið.