143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir svörin. Ég spurði þessarar spurningar náttúrlega vegna þess að ég er reynslulaus maður en mér fannst einhvern veginn, í ljósi sögunnar, að kannski verið allt í lagi að skila hallalausum fjárlögum á tveimur árum. Maður heyrir þá spurningu svolítið úti í umræðunni hvort það þurfi að vera hallalaus fjárlög núna, líka í ljósi þess að ríkisstjórnin er að ná í meiri tekjur með bankaskatti. Ég er alveg sammála því, eins og fram hefur komið hér, að allt í lagi sé að skattleggja þessi bankafyrirtæki og fá frá þeim pening en það verður líka að koma fram í umræðunni að þrotabú bankanna töpuðu fleiri þúsund milljónum, þessi fyrirtæki eða bankar.

Af því að við verðum að ná í þennan skatt hjá gjaldþrota bönkum velti ég því fyrir mér hvort hann hefði ekki mátt vera aðeins hærri. (Gripið fram í: Miklu hærri?) Ekkert miklu hærri, bara aðeins. Það þarf ekki að hækka hann nema um núll komma eitthvað prósent og þá fáum við miklu meiri tekjur. Fyrst við erum að þessu á annað borð, af hverju förum við ekki alla leið?