143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi Tækniþróunarsjóðinn væri auðvitað mjög skemmtilegt að geta eytt meiri fjármunum þar í, það er alveg rétt. En hins vegar erum við einfaldlega í þessari stöðu. Við ætluðum okkur að ná að setja meira fé inn í heilbrigðismálin, við ætluðum okkur að skila hallalausum fjárlögum og því komum við víða niður. Þannig er þetta bara.

Varðandi Hafnabótasjóð og hælisleitendur er kannski alveg rétt að erfitt er að sjá hvað er akkúrat skylt með þeim tveimur fjárlagaliðum og hægt er að fara í einhverjar spekúlasjónir um það, en þetta er innan sama ráðuneytis.

Hugmyndin um nýju fjárreiðulögin, eftir því sem sumir ráðherrar hafa alla vega lýst yfir, er sú að það verði miklu einfaldara að flytja á milli liða innan sama ráðuneytis. Við erum kannski að horfa þarna aðeins inn í framtíðina en ég þekki það ekki hversu algengt þetta hefur verið í fortíðinni varðandi fjárlögin. Ég hef ekki setið áður í fjárlaganefnd en hef verið með í þeirri yfirferð þegar ráðuneytið kom og fór yfir alla þessa liði — sem er mjög fróðlegt að upplifa. En ég trúi því að við séum á réttri leið og þá líður manni alveg ágætlega með þessi mál.