143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég spurði af því að hann notaði, eins og ég sagði áðan, þetta stóra orð, þjóðargjaldþrot. Mér finnst þetta afar djúpt og mikið hugtak sem manni ber að fara varlega með.

Hv. þingmaður talaði um veiðigjöldin og mig langaði að spyrja hann út í þau. Hann talaði um að þetta hefði verið röng ákvörðun, þetta hefði verið óframkvæmanlegt. Í umræðunni hefur margoft komið fram að agnúar voru á lögunum sem hefði verið hægt að lagfæra á annan hátt en gert var. Það á líklegast ekki bara við um þessi lög í gegnum tíðina heldur mörg önnur og ég spyr hvort hann telji að hægt hefði verið að lagfæra þau upp á við, til að fá meiri tekjur, eins og við í minni hlutanum höfum verið að benda á.

Mig langar líka að spyrja varðandi þær tillögur sem hér hafa komið fram, af því að við höfum nú haft af því fregnir að mjög illa hafi gengið að fá þær inn í fjárlaganefnd, (Forseti hringir.) hvort einhver núningur er enn þarna á milli eða hvort báðir ríkisstjórnarflokkarnir og allir þingmenn standi að baki þessum tillögum.