143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Mér fannst þessar aðfarir í raun og veru svíðingslegar, ég get ekki annað sagt. Mér finnst það alveg stórfurðulegt að fólki í störfum af þessum toga sé gert að hætta strax. Látum vera ef það kýs það sjálft, en fólk sem er búið að gera þátt um Njáls sögu til dæmis má ekki senda þáttinn út. Hvaða meinbægni er þetta? Hvað heldur útvarpsstjóri að hann sé? Ég segi nú ekki annað. Mér finnst þetta algjörlega fáránleg aðferðafræði, satt að segja.

Hitt er svo annað mál af því að hv. þingmaður nefndi líka utanríkisráðuneytið og meðferðina á því sem sætir furðu og ég velti líka fyrir mér hvort þar sé hinn sami hugur formanns fjárlaganefndar til alls þess sem hefur með eitthvert erlent samstarf að gera. Það er ekki eðlilegt að ráðuneyti eins og utanríkisráðuneytið, sem fer með um 2% af ríkisútgjöldunum, taki á sig svona geysilega stóran hluta af niðurskurðarkröfunni, margfalt á við það sem er hlutdeild þess í rekstrinum almennt. Þetta stenst ekki.

Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé einhver hefndarráðstöfun gagnvart hæstv. utanríkisráðherra. Ég velti því fyrir mér. Hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því eða einhverjar skýringar á því hvers vegna það virðist vera svona handahófskennt hvernig farið er í málin? Kann það að vera í einhverju samhengi við yfirlýsingar formanns fjárlaganefndar, hv. þingmanns, í garð þessara tilteknu málaflokka?