143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:36]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hressilega ræðu og vilja til þess að vera hjálplegur. Mér finnst þó svolítið skondið að heyra hann hneykslast á því að við lækkum þróunaraðstoð. Mér skilst í jólabókaflóðinu í dag að það hafi ekki verið honum að þakka að hún var ekki lækkuð verulega í síðustu ríkisstjórn.

Hann fór hér með tölur um afkomu úr sjávarútveginum undanfarin ár sem eru eflaust réttar og þær undirstrika þær miklu sveiflur sem eru í uppsjávargeiranum. Það kom fram, þessar tölur, eigið fé, hvernig það var fyrir nokkrum árum. Þessi fyrirtæki voru nánast öll á hausnum. Svo koma góð ár sem betur fer og nú eru þau búin að rétta úr kútnum sem sýnir sig í því að þau borguðu yfir 10 milljarða í tekjuskatt á síðasta ári. Við skulum fagna því. Ég tek undir það að auðvitað eiga þeir að borga þar sem arðsemin er mest og allar tölur sýna að arðsemin er mest í uppsjávargeiranum. Þess vegna spyr ég hv. þingmann — núna erum við með veiðileyfagjöldin á uppsjávarafla 38,25 kr.: Hvað telur hann að við eigum að hækka það mikið? Hann talar um afsláttinn á veiðileyfagjöldunum á smáu bátana alveg upp í 200–300 tonn. Hvaða forsendur eru fyrir því? Ég hef sjálfur gert út smábát og ég tel (Forseti hringir.) hagkvæmara að gera út smábát en stór skip. Ég sé ekki alveg forsendurnar fyrir þeim afslætti.