143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:21]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að ég taki það sérstaklega fram, vegna þess að það hefur verið þannig, að skólameistarar framhaldsskóla hafa ekki farið í fjölmiðla og talað um þann vanda sem framhaldsskólarnir glíma við svo nokkru nemi er ég ekki þar með að segja að eitthvað annað sé á annan hátt. Eitt af því sem mér finnst svolítið einkenna umræðuna hér er að þótt maður segi eitt skilja hv. þingmenn það á einhvern annan hátt. Það er þessi túlkun á orðum manna.

Í framhaldsskólum landsins hefur verið niðurskurður miklu lengur en elstu menn muna, alveg frá nítján hundruð níutíu og eitthvað, get ég fullyrt. Það hefur verið unnið hörðum höndum að því að fara vel með þá fjármuni sem fara þangað inn. Það er vitað mál að þarna inn vantar fjármuni sem við þurfum að forgangsraða fyrir á næstu árum.

Varðandi potta er það þannig, eins og hv. þingmaður veit, að þegar rekstrarafgangur verður í ríkisstofnun er hann alltaf færður yfir á næsta ár og þá er hann yfir höfuð nýttur í rekstur komandi árs. Í því tilfelli sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að benda á erum við að tala um 350 milljónir sem tillaga var lögð fram um að yrðu nýttar á ákveðinn hátt. Fjárlaganefnd hefur fengið Ríkisendurskoðun til fundar við sig og það þarf að vinna það á annan hátt.