143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum í 2. umr. um fjárlögin fyrir árið 2014. Í umræðunni hefur Samfylkingin lagt fram eigið nefndarálit og eigin tillögur þar sem áherslan er á að bæta kjörin, ekki hvað síst hjá lágtekjuhópunum og meðaltekjuhópunum. Fram hefur komið í andsvörum í morgun að á margan hátt situr hópurinn sem er með lægstu launin eftir í þeim aðgerðum sem birtast í frumvarpinu.

Í öðru lagi er lögð áhersla á að sækja fram, bæði í atvinnumálum og velferðarmálum, og þar eru nokkur atriði tilgreind sem varða það að undirbúa framtíðina, t.d. hvað varðar Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð.

Í þriðja lagi er verið að tala um sanngjörn gjöld, þ.e. að við sækjum okkur tekjur þar sem má búast við að menn finni hvað minnst fyrir þeim.

Ég ætla ekki að fara yfir þessar tillögur nú í upphafi, fer betur yfir þær í lokin, heldur fara aðeins yfir fjárlagavinnuna og frumvarpið, hvernig það hefur þróast þar til við erum komin hingað, þ.e. í 2. umr.

Í fyrsta lagi er ástæða til að vekja athygli á að gefinn var frestur til að skila frumvarpinu vegna þess að kosningar voru á árinu og náðist ágæt sátt um það að fresta framlagningu frumvarpsins og fresta þingbyrjun, þ.e. frá 10. september til 1. október, til að menn hefðu betri tíma til að vinna frumvarpið. Það var nýjung, hafði verið sett í lög og menn stóðu við það að tekjuhluti frumvarpsins var lagður fram með fjárlögunum, sem var mjög gott viðbótarmál. Á móti kom að fjáraukinn, þ.e. uppgjörið á árinu 2013, hvað staðið hafði út af og hvað þurfti að bæta við, dróst og kom því mjög seint inn í umræðuna, sem er í sjálfu sér mjög slæmt.

Á þeim tíma var starfandi hagræðingarhópur sem skilaði tillögum. Nú hefur komið fram í umræðunni að áhrifa þeirrar vinnu hefur í sjálfu sér ekki gætt verulega í fjárlagafrumvarpinu. Ég ætla því ekki að eyða miklum tíma í það en geta þess að það er form sem hefur verið við lýði í mörg ár, var hjá fyrri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og aftur hjá Samfylkingu og Vinstri grænum, að sérstakur hópur fylgdist með hvernig þróunin væri í ríkisfjármálum og kom með tillögur, þó að það hafi aldrei verið gert með svona flugeldasýningum eins og var í sambandi við þessa vinnu núna.

Mikið er rætt um það hvernig aðkoman var þegar menn fóru að vinna fjárlögin núna. Má skilja það svo að þegar ný ríkisstjórn kom að hefði hún komið að afar vondu búi og eins og hrunið væri að byrja í dag. En búið er að fara ágætlega yfir það í umræðunni hvernig aðdragandinn var, hvernig aðkoman var að fjárreiðum ríkisins og fjárlögum allt frá árinu 2009 þegar við vorum að glíma við halla upp á um 200 milljarða, gríðarlega háar tölur, og vorum að vinna með halla upp á 14% af landsframleiðslunni á þeim tíma. Ástandið þegar menn tóku við er nú ekki verra en það að menn eru að nálgast það að vera komnir niður í 1% af landsframleiðslu og niður fyrir það í sambandi við hallareksturinn. Og það ánægjulega er að hér eru menn að glíma við það vegna þess sem á undan er gengið, að nú geta menn sett sér það markmið að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næsta ári.

Mikið hefur verið rætt um agann í þessu samhengi, bæði fyrir og eftir hrun. Ef menn skoða tölurnar er augljóst að aginn í ríkisfjármálum jókst eftir hrunið, menn fóru að vanda sig betur. Fjáraukinn varð ekki sú viðbótarfjárveitingarveita eins og hafði verið áður. Það var viðvarandi og þegar við komum hingað inn, ég kom á þing árið 2007, þá þótti ekki óeðlilegt að bæta við eins og í heilsugæsluna í Reykjavík yfir 1 milljarði í fjáraukalögum og allt upp í 1–3 milljörðum í Landspítalann. Menn voru með slíkar aukningar í fjáraukalögum.

Þess vegna var athyglisvert í fjárlagafrumvarpinu að þegar menn taka meðaltalið á síðustu tíu árum, hversu mikið hafi verið farið fram úr, að það er auðvitað miklu minna á síðustu þremur árum og var ánægjulegt að fylgjast með því í fjáraukalögunum núna að menn eru að reyna að einskorða vinnuna við það að taka það sem er óvænt í útgjöldum. Þannig á það auðvitað að vera, fjáraukalög eru til þess að rétta af þær breytingar sem verða innan ársins og það sem er óvænt.

Það sem hefur verið athyglisvert í umræðunni um fjárlögin 2014 er að menn hafa orðað það svo að þetta væri lifandi plagg. Ég held að óhætt sé að fullyrða að það hefur verið það. Svo getur maður velt vöngum yfir því hvort það er gott eða slæmt. Það sem hefur gert okkur sem lesum þetta utan frá oft erfitt fyrir er að það sem lagt var fram í fjárlögunum virðist hafa verið það vanbúið að það er eins og menn hafi aldrei ætlað sér að nota það öðruvísi en sem drög. Eftir sem áður erum við að skoða fjárlögin núna út frá því hvað lagt var fram í frumvarpinu, hvaða breytingar er verið að gera núna við 2. umr. og nú þegar hafa verið boðaðar miklar breytingar fyrir 3. umr. Auðvitað verður maður að hafa allan fyrirvara á því hvernig þetta breytist. Segja má að breytingin á milli 1. og 2. umr. sé verulega jákvæð og við skulum vona að margt af því sem vantar í frumvarpið komi þá inn í 3. umr.

Ég verð að segja að þegar fyrsta útgáfan kom var hún veruleg vonbrigði. Þá var það ekki bara vegna þess hvernig staðan var, menn voru með hrakspár, og það er alveg rétt að aukinn halli var fyrst og fremst vegna þess að tekjur brugðust, að menn héldu. Það hefur gengið til baka að hluta, en fyrst og fremst var það þannig að tekjur brugðust. Og þá hafa menn leyft sér að segja í umræðunni að það hafi verið vegna þess að menn hafi búið til tekjur eða hafi verið að reyna að keyra þær upp. Það er nú einu sinni þannig að fjárlögin fyrir árið 2013, eins og fjárlögin fyrir 2014, byggja á þjóðhagsspá og spurningin er alltaf: Hvaða spá tekurðu? Og þá er reynt að fara eins nálægt í tíma og unnt er. Spáin fyrir fjárlögin 2014 hefur batnað, þannig að spá um hagvöxt á árinu hefur hækkað. Hún var 2,7%, ef ég man rétt, fyrir árið 2013 en núna eru nýjustu tölur þær jafnvel að niðurstaðan verði 3,1%. Ég ætla ekki að ræða það mikið frekar en það er samt óþolandi þegar verið er að gera mönnum það upp að verið sé að búa til einhver kosningafjárlög. Þeir sem halda því fram verða að segja: Margur heldur mig sig.

Eitt af því sem olli mér verulegum vonbrigðum í fyrstu útgáfu fjárlagafrumvarpsins var að þar var boðaður niðurskurður um 1 milljarð í heilbrigðismálum, 220 milljónir hjá heilbrigðisstofnunum úti á landi, 134 milljónir hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, tækjapeningarnir voru teknir út, sem voru að vísu ákveðnir eins og gjarnan er í byrjun og víða er svo í fjárlagafrumvarpinu 2014 að ákveðið er ár í byrjun og síðan er reiknað með að endurnýja það. 600 milljónir voru teknar út af tækjakaupum Landspítalans. Að vísu var texti um að það mundi verða skoðað betur á milli umræðna og það hefur verið gert. Það hefur verið gert líka í miklu fleiru og þegar menn tala um 4 milljarða — ég kem betur inn á það síðar — upphafspunkturinn er að byrja með 1 milljarð í niðurskurð, síðan bæta menn 4 við þannig að raunaukningin er um 3 milljarðar.

Í frumvarpinu eru nýjar tekjuhugmyndir, þ.e. þær eru útfærðar betur og því ber að fagna mjög, sem er skattur á þrotabú bankanna. Það kom ágætlega fram í ræðum áðan, til dæmis frá hv. þm. Karli Garðarssyni þar sem vakin er athygli á því, og menn geta deilt um það, hvort byrja hefði átt þá skattlagningu fyrr, en hún var óframkvæmanleg meðan ekki lá fyrir hver skattstofninn var, þ.e. að bæta þrotabúunum við. Þetta var reynt á sínum tíma en svo geta menn deilt um það hvort hugsanlega hefði verið hægt að gera það í fyrra. En alla vega er full ástæða til að taka þetta inn núna og sækja í þann gjaldstofn vegna þess að það er auðvitað mikið réttlætismál að þeir aðilar leggi verulega til þjóðarbúsins. Þó að það sé ekki varanlegur tekjustofn skiptir máli að nýta sér þær tekjur.

Það vekur athygli núna í 2. umr. þegar menn bæta við í fjárlögin að talað er um að því hafi verið mætt með hagræðingu. Það er nú því miður ekki þannig heldur hefur tekjuspáin á milli umræðna lagast það mikið. Hagræðingin á móti er ekki nema hluti af aukningunni, svo að því sé haldið til haga. Í raunveruleikanum er verið að hræra í pottinum og færa til og það er verkefnið fyrir þingið og ríkisstjórnina á hverjum tíma, og vonandi á eftir að hræra meira, þ.e. að laga þetta enn betur.

Af því að talað er um að menn séu neikvæðir þá fagna ég þessum tekjuhugmyndum. Ég fagna þeim breytingum sem hafa orðið varðandi heilbrigðismálin. Ég fagna þeim breytingum sem urðu í fjárlagafrumvarpinu varðandi löggæsluna, þó að ég gagnrýni um leið að við skulum þar ekki vera búin að sjá skiptingu á því fé, þannig að við getum rætt það samhliða fjárlögum hvernig því er skipt. Það er einn af þessum pottum sem fer yfir á næsta ár, þar sem það færist frá Alþingi yfir á framkvæmdarvaldið að skipta hlutunum niður og ástæða er til að gagnrýna það.

Af því að menn komu með hrakspárnar inn í byrjun var eitt af því sem vakti athygli á sumarþinginu, og var hluti af þeim vonbrigðum sem maður varð fyrir þegar maður kom inn í þingið eftir kosningar, að fyrstu aðgerðir í þinginu voru að afsala sér sköttum sem höfðu verið ákveðnir. Menn geta deilt um ástæður og hvernig, en alla vega er í frumvarpinu gerð grein fyrir því að miðað við áætlanir hafi menn afsalað sér tekjum upp á 3,2 milljarða á síðasta ári, sem eru um 6,4 milljarðar á árinu 2014.

Það var líka mjög athyglisvert að ríkisstjórnin skyldi taka strax af gistnináttaskattinn. Það gleymist gjarnan í umræðunni að skattur á gistiþjónustu var 14% þar til gengið styrktist mjög og menn vildu bæta ferðaþjónustunni það upp með því að fara niður í 7% tímabundið. Svo heykjast menn á að fara aftur upp í það sem ferðaþjónustan bjó við þegar hún hafði miklu verri kjör en í dag. Þarna vil ég meina að menn séu að afsala sér tekjum.

Í þriðja lagi er það líka gagnrýnivert sem hefur komið fram að víða í frumvarpinu eru nefskattar hækkaðir en þeir skila sér ekki til viðkomandi stofnana. Ríkisútvarpið og háskólinn eru kannski skýrustu dæmin um það.

Það hefur einnig verið erfitt að fylgjast með frá 1. umr. um frumvarpið, ef við förum aðeins yfir í einstök málefni, að þá koma barnabæturnar inn með óbreytta krónutölu frá því sem fyrri ríkisstjórn hafði verið búin að ákveða og hafði haft á árinu 2013. Þó að það væri ekki verðbætt um þau 3% sem allt annað var verðbætt um þá fagnaði maður því að menn ætluðu að halda þeim bótum. Síðan fáum við svona slaufur þar sem tillaga kemur frá ríkisstjórninni um að skerða þetta til að færa í eitthvað annað eða til að ríkissjóður verði aflögufær til að hjálpa til við eitthvað annað. Við þekkjum þá sögu. Plagg kemur til fjárlaganefndar en síðan er því breytt aftur og niðurstaðan er að barnabæturnar eru að krónutölu, sem skerðast þá sem nemur vísitölunni, þær sömu og á næsta ári. Því ber að fagna og er eitt dæmið um það sem kemur fram milli 1. og 2. umr. um frumvarpið.

Vaxtabæturnar voru hins vegar fluttar óbreyttar yfir til 2014 án þess að verðbæta þær, en síðan hafa menn ákveðið að lækka þær um 500 milljónir til að ráðstafa annars staðar. Menn geta kallað það að skera niður eða hagræða, en auðvitað er beinlínis verið að taka af því fólki sem er háðast því að fá þær til baka. Kannski er þetta einhver mótvægisaðgerð á móti leiðréttingarhugmyndunum, ég veit það ekki, en alla vega bitnar þetta auðvitað mest á þeim, barnafólkinu, sem eru með skuldirnar.

Eitt af því sem er óafgreitt og á eftir að skoða miklu betur og er í vinnu í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu eru húsaleigubæturnar. Tillögur koma, ef ég veit rétt, annaðhvort á mánudag eða þriðjudag, þar sem tveir hópar af fjórum teymum skila niðurstöðum. Þar hefur verið glímt við að setja á húsnæðisbætur til að tryggja að það verði samræmt á milli leigjenda og kaupenda hvernig menn fá bætur úr kerfinu.

Aftur á móti má segja að aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi niðurfærslu og leiðréttingar og að borga út úr séreignarsparnaði til að kaupa sér húsnæði séu skilaboð alveg í öfuga átt, þ.e. að hjálpa á leigjendum með því að hjálpa þeim að kaupa. Það er ekki hugmyndin, hvorki hjá hæstv. ráðherra né þeim sem voru starfandi hér áður miðað við tillögur sem hafa komið frá starfshópum. Þvert á móti hafa menn viljað búa til markað fyrir leiguhúsnæði sem er öruggt og varanlegt og valkostur. Ég vona að við berum gæfu til þess að fylgja þeirri stefnu eftir og láta ekki þær hugmyndir sem þar koma fram, sem eru í sjálfu sér góðra gjalda verðar, breyta þeirri forgangsröð.

Ef maður skoðar boðskapinn í frumvarpinu eins og hann birtist í byrjun þá dró ég hann saman í nokkur atriði. Ég ætla að leyfa mér hér í minni hluta og sem stjórnarandstæðingur að draga fram það sem mér fannst vanta.

Í fyrsta lagi gefur fjárlagafrumvarpið þau skilaboð að það sé komið nóg fyrir þá sem hafa lægstu launin. Þeir sem lifa eingöngu á bótum frá Tryggingastofnun eða atvinnuleysisbótum, það kemur eiginlega ekkert til þeirra í þessu frumvarpi. Skattalækkanirnar koma ekki þar, ekki kemur hækkun á neinum af þessum bótum, þær leiðréttingar til baka á bótaflokkunum lenda fyrst og fremst á þeim sem eru með tekjur en ekki á þeim sem eru bara með grunnbæturnar. Skilaboðin eru einhvern veginn þannig: Það er búið að gera nóg fyrir þann hóp. Ég er algjörlega ósammála því. Ég tel að við þurfum að gera betur fyrir lægsta hópinn og eigum eftir töluvert skref þar og við eigum eftir að glíma áfram við að eyða fátæktinni sem er einn af svörtu blettunum á íslensku samfélagi.

Skilaboðin komu líka í gegnum desemberuppbótina. Ég hafði í einhverjum barnaskap mínum aldrei trúað því að þetta mundi gerast. Við tókum þetta upp árið 2010, það hafði aldrei verið áður nema eitt ár einhvern tímann, held ég. Áttum okkur á því að við erum að deila þar út 300–400 milljónum þegar mest var í atvinnuleysinu, sem er margfalt það sem hjálparstofnanir í sinni miklu vinnu geta dreift. Við erum enn með yfir sex þúsund manns atvinnulausa og við finnum enn fyrir þörfinni hjá þeim sem minnst hafa. Af hverju leyfa menn sér að taka þetta út? Hvaða skilaboð er verið að gefa? Aftur er það lágmarkshópurinn sem á að sitja eftir.

Það var engin skattalækkun í neðsta þrepinu eins og ég sagði og engin hækkun á bótunum hjá þeim sem lifa af 210 þúsundunum sem fyrri ríkisstjórn setti sem lágmark þar. Síðan var legugjöldum bætt við sem nú er búið að breyta í komugjöld, sem sýnt hefur verið fram á hér í umræðunni að geta orðið býsna há. Það sem menn höfðu áætlað í legugjöldum er núna fært í komugjöld með sömu kröfum um tekjur. Ef menn ætla að taka það inn á komugjöldum erum við að tala um — ef við gefum afslátt til öryrkja, aldraðra og barna að einhverju leyti, og ég reikna með að það sé helmingur eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur reiknað út miðað við svör frá ráðuneytinu — allt að 15 þús. kr. fyrir hverja komu. Það bætist ofan á allan kostnaðinn sem hefur í mörgum tilfellum komið áður við alls konar rannsóknir, skoðanir og annað og komugjöld sem eru nú þegar í kerfinu. Þetta er eitthvað sem við eigum ekki að leyfa okkur að setja á fyrr en búið er að fara yfir skiptinguna hvað varðar greiðsluþátttöku og breyta kerfinu þannig að jafnað verði betur á milli.

Ég var búinn að ræða nefskattana, hækkun á innritunargjöldum. Það er líka fjandsamlegt þessum hópum vegna þess að krónugjöld leggjast alltaf í eðli sínu þyngra á þá sem hafa minnstar tekjur.

Síðan er hér liður í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. hækkun á frítekjumarki vegna fjármagnstekna. Frítekjumarkið á fjármagnstekjur hækkaði úr 100 þús. kr. í 125 þús. á ári, þannig hækkaði það um 25%. Þá kemur aftur þetta sama: Hverjum gagnast það? Þeir standa ekki verst sem eiga innstæðurnar í bönkunum. Fyrstu skilaboð og þau skilaboð sem hafa almennt verið í gegnum þetta eru — jú, það er verið að eltast við þá sem stundum hafa verið kallaðir millitekjuhópar, og ekki ætla ég að gera lítið úr því, en fyrst og fremst gagnast þetta hátekjuhópum. Það er forgangsröðun sem ég er ekki sáttur við og ég tel að okkur sé ekki stætt á því að gleyma þeim hópi sem er neðstur, þrátt fyrir að menn geti fært rök fyrir því — það hefur ítrekað komið fram, þökk sé þeim sem hafa tekið eftir því — að margt hafi verið verulega vel gert í gegnum krísuna til þess að hjálpa því fólki.

Stærsta breytingin á milli upphaflegrar umræðu um frumvarpið og yfir í 2. umr. eru breytingarnar í heilbrigðismálum og ég fagna þeim mjög. Ég sagði að það þyrfti að minnsta kosti 3 milljarða inn í þann málaflokk strax. Þar tala ég af reynslu. Við gerðum okkur alveg grein fyrir því þegar við fórum í gegnum niðurskurðinn — þar sem glímt er við útgjöld sem eru fimmtungur af heildarútgjöldum ríkissjóðs — að taka yrði á þeim málaflokki eins og öllum öðrum. Margt var gert þar sem eru varanlegar breytingar og hafa verið til góðs. En við gerðum okkur grein fyrir því strax fyrir árið 2013 að við höfðum gengið fram að brúninni, sumir segja fram af brúninni, við getum rifist um það, en við hættum niðurskurði fyrir ári síðan.

Þess vegna fékk ég sjokk, ég ætla ekki að leyna því, þegar ég sá það í frumvarpinu að ný ríkisstjórn ætlaði að byrja upp á nýtt. 220 millj. kr. niðurskurður á landsbyggðina, tekið af stofnun til dæmis á Akranesi, þar sem voru búin að vera blóðug átök um að leggja niður heila deild, spara 125 milljónir, við alla stjórnarandstæðingana sem núna eru í stjórnarmeirihluta. Ég sagði að þá hafi spurningin verið: Viljið þið fá hægri eða vinstri höndina? og þeir völdu að taka hægri höndina. Svo kemur ný ríkisstjórn og segir: Nú ætlum við að taka hina.

Sem betur fer er þetta að mestu dregið til baka en ekki að öllu leyti. En þetta var birtingarmynd fjárlaganna í fyrstu lotu. Sama gilti um heilsugæsluna sem við erum öll sammála um að eigi að vera fyrsti viðkomustaður og mikilvægt sé að efla hana, skorið var niður um 134 milljónir þar. Landspítalinn missti sínar 600 milljónir, ég ætla ekki að gera mikið úr því vegna þess að menn töluðu um að bæta það upp og hafa gert það. Sjálfur hef ég verið talsmaður þess að settar verði ákveðnar prósentur inn á þá stofnun sem hlutfall af rekstri sem færi í tæki. Þannig gætu menn endurnýjað tæki og skipulagt sig til langs tíma og vonandi verður það í framhaldinu.

Þess vegna var lækkunin um það bil milljarður á þeim tíma, síðan fara menn upp um 4 milljarða. Við getum því sagt að aukningin sé 3 milljarðar og það er hið besta mál. Sumt af því var komið inn frá okkur áður og var tekið inn, eins og jafnlaunaátakið sem auðvitað kostaði sitt og verður að segja að hafi verið mjög gott skref vegna þess að við erum að horfa upp á það að þessar stéttir hafa ávallt setið eftir og þær fjölmennu stéttir þar sem konur eru í meiri hluta verða sífellt undir í íslensku samfélagi. Og núna þegar við erum að endurreisa samfélagið sjáum við aftur að viðskiptalífið, bankarnir, eru með launaskriðið en ekki opinberu starfsmennirnir sem gegna kannski mikilvægustu grundvallarstörfunum. Þess vegna má segja að það hafi verið mikill áfangi að ná að hækka þennan hóp um 4,8% plús, það var ólíkt innan hópa af því að þetta voru stofnanasamningar, en heimildin, sem sagt fjárveiting á þessu ári, var gefin upp á 4,8% sem var auðvitað mikið miðað við að í kjarasamningum á árinu voru ekki nema 3,5% sem bættust svo við, og sérstök yfirlýsing varðandi hjúkrunarfræðinga að þetta yrði ekki dregið frá í komandi kjarasamningum, þ.e. ekki yrði sagt: Þið voruð búin að fá þetta. Því er haldið hér inni og ég fagna því líka þannig að engin ástæða er til þess að gera hlutina öðruvísi.

Einnig er hægt að segja að mjög jákvætt er að sett er inn 200 milljóna upphæð fyrir hjúkrunarheimili. Ég held að það sé klókt hvernig það er gert, að segja að nota eigi það til að fara með inn á heimili þar sem er pláss fyrir, þar sem ekki þarf að byggja yfir plássin, af því að nú er þetta þannig að hjúkrunarrými eru oft miðuð við svæði, en það að fá inni á hjúkrunarheimili verður ekki bundið landsvæðum. Forgangur fer eftir færni- og heilsumati fólks. Og einnig er ástæða til að fagna því að Vífilsstaðir koma inn í myndina. En ég átta mig ekki alveg á einu, mér sýnist það vera inni í tölunni, 1.690 millj. kr. í rekstraraukningu hjá Landspítalanum. Það kostar um 400 og eitthvað milljónir, 430 giska ég á, að fara af stað með Vífilsstaði eða reka það heimili yfir árið. Er það þá inni í púllíunni, því að það er Landspítalinn sem á að reka það?

Það er líka önnur spurning. Það er hallarekstur á Landspítalanum upp á sennilega 1,2 milljarða, nú hef ég ekki fengið endanlega tölu, menn vildu ekki bæta í fjáraukalögum það sem ríkisstjórnin fyrri hafði samþykkt þannig að hallinn er meiri en hefði þurft að vera. Á að draga hann frá? Þá er orðið lítið eftir. Ég treysti á að menn geri það ekki. Þetta hefur ekki komið skýrt fram í umræðunni og þegar ég spurði hv. formann fjárlaganefndar sagði hún: Ja, ég veit ekkert um það, það er hæstv. ráðherra sem ákveður það.

Í frumvarpinu eru líka sameiningar á heilbrigðisstofnunum. Þar kemur mér til dæmis á óvart að heilsugæslan á Akureyri eigi að fara undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands, að mér sýnist. Það er að vísu mjög erfitt að átta sig á þessu þegar maður situr ekki í nefndinni og hefur ekki tekið þátt í umræðunni frá grunni. Ég veit að menn eru að tala um að sameina stofnanir á Norðurlandi án þess að þurfa að fara í lagabreytingu, því að í lögunum 2007 er gert ráð fyrir að ákveðin heilbrigðisumdæmi séu í landinu. En ég tel misráðið að taka flaggskipið Sjúkrahúsið á Akureyri út úr þessari sameiningu vegna þess að ég held að það hefði getað verið flaggskipið fyrir Norðurland. En ég hef líka sagt, og þannig vann ég þegar ég var með þetta: Leyfum Norðlendingum sjálfum að glíma við sameininguna og ná árangri hvað það varðar. Þeir höfðu stigið góð skref, en ekki að nálgast það í gegnum fjárlög með niðurskurði og þvingunum. En við skulum sjá hvernig þetta gengur.

Þetta gildir líka um Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ég hef lagst algjörlega gegn því að sameina Patreksfjörð og Ísafjörð á meðan við erum ekki með Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiðina í lagi. Sú leið er lokuð. Það er miklu betra að sækja fólk til að aðstoða á Patreksfjörð frá Reykjavík en frá Ísafirði yfir stóran hluta ársins, því miður er það þannig. Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði er mjög lítil og við áttuðum okkur snemma á því að ekki væri mikið sækja þar og hugmyndir um að taka meira þar eru auðvitað alveg út úr kortinu. Ég er því ekki hrifinn af þeim sameiningarhugmyndum sem hér birtast. Til dæmis að taka út nýjan samning á Höfn í Hornafirði. Sveitarfélagið hefur rekið þar heilbrigðisþjónustu með myndarbrag, nú er það lagt undir Selfoss. En látum það liggja á milli hluta.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á tveimur fjárfestingarliðum sem voru í bígerð og voru komnir í gang sem hefðu stórbætt aðstöðu í tengslum við slíkar sameiningar. Önnur þeirra var beinlínis hugsuð sem hagræðingaraðgerð til lengri tíma, en þeim er hent út. Annars vegar í Stykkishólmi þar sem við erum með gríðarlega stóra byggingu sem er vannýtt og hins vegar hjúkrunarheimili sem bærinn rekur en er fjármagnað með daggjöldum frá ríkinu. Niðurstaða eftir mikla vinnu á milli sveitarfélagsins og ríkisins varð sú að færa hjúkrunarheimilið inn á heilbrigðisstofnunina, breyta því þannig hluta stofnunarinnar varanlega í hjúkrunarheimili. Þar sparast að vera með tvöfalda vakt, annars vegar á sjúkrahúsinu og hins vegar á hjúkrunarheimilinu. Þar sparast líka mötuneyti og annað slíkt. Þessu er hent út. En það kostar stundum að spara. Það kostar að búa sér í haginn og það kom mér mjög á óvart að menn skyldu gera þetta.

Sama er með Selfoss. Gríðarlega flott vinna hefur verið við að klára aðstöðuna á sjúkrahúsinu og nú þegar verið er að tala um að sameina á Suðurlandi, þá skuli menn ekki hafa döngun í sér til að reyna að halda þeim framkvæmdum áfram, það kom mér á óvart.

Svo má hafa mörg orð um það að í fjáraukanum birtust nokkrir liðir allt upp í 1,6 milljarða ef ég man rétt, ég biðst velvirðingar ef ég fer rangt með töluna, í greiðslum sjúkratrygginga til sérgreinalækna, sem eru nánast opnir kranar, ýmis endurhæfing, hjálpartæki og svokölluð S-merkt lyf eða sérmerktu lyfin. Þetta fer óbreytt allt saman inn. Það eru engar hagræðingaraðgerðir í þessu. Þar með eru menn að gefa ákveðin skilaboð, sem skiptir auðvitað miklu að velta fyrir sér.

Ég er búinn að fara yfir legugjöldin sem nú eru orðin komugjöld og hvað þau muni geta þýtt. Eitt af því sem gerist við kerfisbreytingu í heilbrigðisþjónustu sem felst fyrst og fremst í því að fólk dvelur skemur á sjúkrahúsum, fer fyrr heim, jafnvel er miklu meiri dagdeildarþjónusta, menn eru orðnir flinkari við að afgreiða mál og senda fólk síðan beint heim — þetta er ekki íslenskt fyrirbrigði, þetta er alheimsfyrirbrigði og hluti af því sem menn hafa gert — en þetta þýðir að peningaleg álög á sjúklinga verða meiri. Við höfum verið að færast þar upp þó að gjaldskrá hafi ekki verið hækkuð, en við höfum sagt að greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðisþjónustu sé þegar orðin of há. Og verkefnið sem þarf að vinna núna í sambandi við það að endurskoða þessa greiðsluþátttöku með því að dreifa henni og jafna, hún felur í sér að reyna að tryggja að menn geti, þrátt fyrir mismunandi tekjur, fengið fullkomna þjónustu. Það er grundvallaratriði, bæði hvað varðar búsetu og efnahag, að menn fái góða þjónustu. Vinna er í gangi, undir stjórn hv. þm. Péturs Blöndals, með fulltrúum frá ólíkum stjórnmálaflokkum og hefði verið nær að klára þá vinnu áður en byrjað er tilviljunarkennt að taka gjöld inn í heilbrigðiskerfið.

Látum það duga um heilbrigðiskerfið að öðru leyti, en eins og ég segi hef ég ekki haft tækifæri til að fara í smáatriðum yfir hvað þessi aukning frá fjárlögunum þýðir. Ég nefni Heilbrigðisstofnun Vesturlands, sem er með bæði Hólmavík og Hvammstanga inni, þar átti að skera niður tæpar 44 milljónir. Í 2. umr. koma 35 milljónir til baka, þannig að þar er enn 10 milljóna niðurskurður ofan á allt það sem á undan var gengið. Mér finnst þetta skipta máli þegar menn eru að skila til baka. Af hverju var það? Var það kannski vegna þess að sú heilbrigðisstofnun hefur staðist fjárlög, hefur ekki þurft að fá neina aðstoð, hefur vandað sig mjög vel við að tryggja að hlutirnir gangi upp og hefur kannski ekki verið háværasta stofnunin í gagnrýni á fjárveitingar? Það er ekki vegna þess að hún hafi rýmri fjárhag en aðrir, heldur einfaldlega vegna þess að hún hefur valið þetta sem ákveðinn stjórnunarstíl. Er það þá ástæðan fyrir því að lækkað er hjá henni? Við þessu hef ég auðvitað engin svör en treysti á að þetta verði lagað þannig að það fari þá enginn niður á milli umræðna þegar menn eru farnir að setja inn 3 milljarða í viðbót, 4 milljarða í heild.

Ég nefndi í upphafi að ákveðnir hópar lífeyrisþega sitja eftir í aðgerðunum, bæði í frumvarpinu og núna í 2. umr. Kosningaloforðin voru að bæta ætti niðurskurðinn frá 2009 og raunar mátti nú skilja niðurskurðinn almennt strax. Ég ætla ekki að gera ágreining um það. Í sjálfu sér er búið að túlka hugtakið „strax“ með nýjum hætti. En um sumarið var tekið inn frítekjumark atvinnutekna hjá lífeyrisþegum, þ.e. ellilífeyrisþegum, ekki öryrkjunum, því að þeir voru með það fyrir, þeir máttu hafa tekjur, en það var hækkað úr 40 þús. upp í 110 þús. kr. á mánuði og það eru, takið eftir, þeir sem höfðu tekjur. Þetta var gert til jafns við öryrkja. Og það var auðvitað mjög gott skref en þetta gagnaðist ekki þeim sem höfðu engar tekjur. Þetta er eina aðgerðin sem er þegar komin til framkvæmda.

Síðan koma tvær aðgerðir í frumvarpinu til framkvæmda um áramót. Önnur er sú að út falla lög sem voru sett sem skerðing, skerðingarmörk, þ.e. í tekjutengingu og í heimilisuppbót, að skerðingin var aukin úr tæpum 38,4% yfir í 45%. Það átti að falla út um áramót og mun gera það. Þau lög voru sett af fyrri ríkisstjórn, það átti að falla út og ný ríkisstjórn lætur það gerast og við fögnum því mjög.

Hin aðgerðin sem kemur um áramót er að fyrri ríkisstjórn gerði samkomulag við lífeyrissjóðina árið 2010 um að frítekjur, lífeyrissjóðsgreiðslur mundu ekki skerða krónu fyrir krónu. Eins voru víxlverkanir líka stoppaðar. Þetta var ákveðið árið 2010 og kemur annað skrefið til framkvæmda núna um áramótin og skilar 650 millj. kr. til lífeyrisþega.

Annað er ekki í frumvarpinu. Engar leiðréttingar eru á því að menn hafa verið að hækka bæturnar aðeins undir verðlagi, sem við höfum hreinskilnislega viðurkennt. Ég hef ítrekað bent á að þær hafa skerst um 6–7% á þessu tímabili sem þyrfti að bæta upp. Síðan var gripið inn í aðgerð sem er sérstök framfærsluuppbót sem var sett, 40 þús. ofan á eða rúmlega það, til að tryggja að enginn færi niður fyrir 210 þús. fyrir skatt, en þar er sá galli á að skert er krónu fyrir krónu vegna lífeyrissjóðs eða launatekna, það er heldur ekkert lagað. Við ætluðum að laga þetta með nýju frumvarpi um almannatryggingar sem hlaut ekki framgang. Sagt var að það hefði komið of seint fram. Það var lagt fram aftur á sumarþinginu og hlaut engar undirtektir frá stjórnarmeirihlutanum þannig að nú er verið að vinna að frumvarpi upp á nýtt og vonandi kemur eitthvað gott út úr því.

Það sem ég er fyrst og fremst að benda á er að við fögnum því að viðbótarútgjöld eru í frumvarpinu til að mæta skerðingum, en ekki er gengið mjög langt og ákveðnir hópar eru skildir eftir.

Það er af svo mörgu að taka í sambandi við þessa umræðu að ég kemst auðvitað engan veginn yfir það allt saman en hef aðeins helgað mér þá málaflokka sem ég hef unnið með undanfarin síðustu ár í velferðarráðuneytinu. Mig langar samt að fara aðeins yfir í mennta- og menningarmálin, ekki hvað síst þar sem ég er kominn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þar eru nokkur atriði sem maður hnýtur um og er að skoða. Eitt af því sem ég hef oft sett sem fókus á er: Hvernig breytum við umhverfinu í landinu með því að segja: Skoðum það út frá unga fólkinu. Skoðum það út frá börnum, unglingum og fólki í skólum. Hvað bíður þeirra þegar fram í sækir?

Þar er ekki lengur verið að ræða um hvort fólk er búsett á Akranesi, í Reykjavík eða á Egilsstöðum, menn ræða um hvort fólk er búsett í Reykjavík, á Akranesi, Egilsstöðum, Ósló, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi eða hvar sem er í Svíþjóð eða Bandaríkjunum. Þetta er umhverfið sem við höfum í dag. Því miður er það þannig að við höfum valið okkur að loka okkur svolítið af, við höfum valið okkur að vera með gjaldmiðil sem gerir alla samkeppni um fólk miklu erfiðari. Við höfum farið í gegnum hremmingar hvað varðar Íbúðalánasjóð, sem er gömul arfleifð, sem verður síðan til þess að vandamálin hafa hrannast upp núna í hruninu, erfitt er að eignast húsnæði, erfitt er að komast í húsnæði, ekki er mikið framboð á húsnæði til dæmis á höfuðborgarsvæðinu og það bitnar auðvitað fyrst og fremst á ungu fólki.

Við erum að sjá niðurskurðinn á rannsóknarsjóðum og þróunarsjóðum sem fólk er að grípa til til að reyna að koma sér út á vinnumarkað. Við sjáum að boðaður er niðurskurður hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, það þrengir möguleikana á að komast í nám. Það var að vísu rekið til baka á árinu 2013 en ég veit ekki betur en að það sé að fullu inni hér árið 2014 bara með því að boða þær breytingar með lengri fyrirvara þannig að það verði ekki rekið til baka af dómstólum.

Hætt er við lengingu á fæðingarorlofi, sem er hluti af því að búa ungu fólki framtíðarsýn. Verið er að draga úr atvinnuátaki fyrir ungt fólk. Við vorum með Nám er vinnandi vegur og vorum líka með Atvinnutorg þar sem reynt var að ná utan um hópinn sem hugsanlega verður fórnardýr atvinnuleysisins, sem allir vita að er hættulegasti hluti af atvinnuleysinu ef það bitnar á unga fólkinu og það kemur sér ekki út í lífið. Þar áttu sveitarfélögin mjög gott frumkvæði í samstarfi við ríkið að leita að því fólki sem jafnvel var hvergi, eins og við orðuðum það, þ.e. var ekki í skóla, var ekki á félagslegum bótum, átti jafnvel engan atvinnuleysisbótarétt, býr á heimilum, er vanvirkt og þá á ég við að það er ekki mikið sýnilegt og er jafnvel að koðna niður. Það var verið að leita skipulega að þeim hópi. Þetta er dregið saman í fjárlögunum. Það gildir sama, eins og ég sagði, með rannsóknarsjóðina. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það því að búið er að fara ítarlega yfir það.

Ég nefndi að margt var komið áður og ber að fagna því að ný ríkisstjórn lætur það lifa í fjárlagafrumvarpinu, vegna þess að mjög einkennandi var í byrjun að menn sögðu: Við ætlum að hverfa aftur og hreinsa allt út sem er nýtt. En það er ekki þannig. Við skulum því láta ríkisstjórnina mæta fullri sanngirni í því að margt af góðum hlutum er áfram í fjárlagafrumvarpinu. Þar eru til dæmis gjaldfrjálsar tannlækningar, samningur sem gerður var af fyrri ríkisstjórn til að tryggja það eftir 20 ára vandræði þar sem greiðsluþátttaka var dottin niður í 40% þó að lagalega ætti hún að vera 75%. Það ástand var komið fyrir hrun. Búið er að gera samning þar sem í áföngum verður tryggt að börn yngri en 18 ára eigi möguleika á gjaldfrjálsum tannlækningum með einu komugjaldi á ári, sem var skilgreint um 2.500 kr. Það er allt það sem heimilið þarf að leggja fram óháð því hversu oft börn koma til að láta gera við tennurnar. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt.

Ég var búinn að nefna jafnlaunaátakið, sem skiptir auðvitað mjög miklu máli, og er 1,3 milljarðar í frumvarpinu. Þetta með að draga til baka skerðingarnar, víxlverkanirnar, var líka búinn að nefna, sem var frá fyrri ríkisstjórn. Barnabæturnar, eins og þær eru núna, því ber að fagna að það lifir áfram, því að það var 23% hækkun á barnabótum á milli 2012 og 2013, og ég fagna því að það er ekkert skert hér.

Einnig var tekin ákvörðun um það, ég man ekki nákvæmlega hvenær því að það var gert í tveimur áföngum, að til dæmis komugjöld barna í heilsugæslunni og á bráðamóttökur eru núll, það er ókeypis. Það lifir áfram og ég ætla að vona að ekki verði lagt komugjald á börn við innlögn á sjúkrahús.

Ef við skoðum menntamálin — stórir hlutar eru eftir sem ég næ ekki að fara yfir í smáatriðum í þessari ræðu — þá eru þar býsna mörg áform sem hafa ekki hlotið mikla umræðu, en mörg af þeim hafa lifað í mörg ár. Í rauninni er verið að boða það að stytta eigi nám til stúdentsprófs, hvað sem það nú þýðir. Það er verið að tala um sameiningu framhaldsskóla, talað er um sameiningu háskóla. Útfærslurnar liggja ekki fyrir og við höfum ekki fengið neinar skýringar á því með hvaða hætti þetta eigi að vera, og verður auðvitað að krefjast þess að það verði skýrt betur.

Við erum að glíma við verulegan niðurskurð á RÚV. Við höfum farið í gegnum umræðuna um hvert hlutverk RÚV eigi að vera fyrir nokkrum mánuðum síðan og skilgreint það.

Ég átta mig til dæmis ekki á hvað verður um það baráttumál að auka menntunarstig á Íslandi. Íslendingar sem eru eingöngu með grunnskólamenntun eru 30% af vinnuafli. Það er 10% í Danmörku og þar er markmiðið að koma því niður í 5%. Sett var inn tilraunaverkefni af fyrri ríkisstjórn bæði í Norðvesturkjördæmi og Breiðholti til að auka menntunarstig. Er það lifandi áfram eða ekki? Ég treysti á að það sé lifandi og skil það þannig og ég ætla ekki að gera neitt neikvætt úr því í sjálfu sér.

Við vorum búin að ræða þjóðmenningarpottinn hjá forsætisráðherra og þó að ég sé að spyrja um hann er ég ekki að gagnrýna það sem þar á að fara í pottinn. Ég sé alveg fyrir mér að menn þurfi að hlúa að ákveðnum stofnunum og byggingum, ég hef stundum nefnt Sögusetur íslenska hestsins, sem er á Hólum, sem hefði þurft að efla. Við erum með Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri, eins og hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir benti á, mjög merka byggingu sem þyrfti að hlúa að o.s.frv. Við erum því ekki að slást um það heldur bara hvernig staðið er að þessu.

Það voru hávær mótmæli eftir framlagningu frumvarpsins varðandi byggðamálið sem stóðu upp úr hverjum einasta sveitarstjórnarmanni þegar við fórum um kjördæmin á þeim tíma. Sóknaráætlanir voru teknar út. Nú er hluti af þeim kominn inn aftur. Verið er að taka út verkefnið Brothættar byggðir. Verið er að bjarga dreifnáminu aftur, sem er hið besta mál, var skorið niður í fyrri lotunni. Og ferðamálin, fjarskiptasjóður er tekinn út, við skulum vona að það verði bætt með einhverjum hætti. Flutningsjöfnunin kom inn aftur líka eða skýring á því að þeir ætla ekkert að borga til hennar, en það á að breyta því að borga fyrir fram inn í sjóðinn og borga það eftir á, það var allt og sumt. Ég hef ekki náð að taka þróunaraðstoðina, sem er einn af smánarblettum okkar, að við skulum ekki standa við skuldbindingar gagnvart þeim sem lifa af (Forseti hringir.) 1–2 dollurum á dag og hjálpa þeim eftir (Forseti hringir.) því sem við mögulega getum.