143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég eyddi þó nokkrum tíma í einmitt þetta í ræðu minni því að ég hef af þessu verulegar áhyggjur. Ég fór líka yfir það að ég tel eðlilegt að draga þurfi saman hjá stjórnsýslunni eins og öllum öðrum opinberum stofnunum í íslensku samfélagi og öðrum fjárlagaliðum í fjárlögum, en þetta er geðþóttaákvörðun, tekin á síðustu stundu. Þetta er ekki lagt til af ríkisstjórninni. Engar áætlanir liggja að baki ákvörðuninni um hvaða verkefni eru undir, 1/20 af fjármunum fara út úr ráðuneytunum með þessum hætti. Það er verið að veikja stjórnsýsluna gríðarlega. Það er líka verið að senda stjórnsýslunni mjög skýr skilaboð, að þar þyrmi fjárveitingavaldið engum. Þar er búið að gera aðhaldskröfu ár eftir ár. Það er aðhaldskrafa í núverandi frumvarpi, nú er bætt í enn frekar. Mér finnst þetta hafa pínulítinn hótanastíl yfir sér. Það er verið að veikja stjórnsýsluna, það er einboðið.

Ég hef þegar rætt þetta við fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd. Við ræddum mikilvægi þess að ráðuneytin kæmu inn í fjárlaganefnd á milli umræðna, legðu fram yfirlit yfir hvaða verkefni það eru sem ráðuneytin hætta að sinna, hvort þyrfti lagabreytingar eða eitthvað vegna þess, og eins hvað er áætlað að þurfi að segja upp af starfsfólki vegna þessa niðurskurðar.

Ég fór líka yfir að það er ekki gott að hafa sterka fjölmiðla þegar áætlanir eru ekki góðar og svara þarf erfiðum spurningum. Þegar teknar eru ómálefnalegar ákvarðanir æ ofan í æ er líka vont að hafa stjórnsýslu sem kynni að veita aðhald.